WWDC 2020 – iOS 14 og meira

24. júní 2020

WWDC 2020 ráðstefnan er gengin í garð! Árleg tækniráðstefna Apple var haldin í fyrsta skiptið á stafrænu formi í gær, 22 júní. Þar voru miklar nýjungar kynntar, og má segja að framtíðin sé björt hjá Apple. Í gær voru kynntar til leiks langþráðar nýjungar sem Apple unnendur hafa beðið lengi eftir. Þar má aðallega nefna breytingar á heimaskjánum í iPhone. En Apple kynnti í gær Widgets. Það munu eflaust margir segja „en Samsung er búið að vera með widgets í mörg ár, vel gert og velkomin á 21. öldina Apple“… jájá, mér er sama. Undirritaður myndi ekki fá sér Android síma þótt svo að þeir væru 20 ár á undan Apple. Ég meina það. Gefðu mér iPhone með einungis reiknivél og engu hleðslu tengi, ég tek hann, alltaf.

iOS14

Með Widgets muntu geta bætt við einskonar flýtileið á heimaskjáinn, sem mun hanga þar með öllum hinum öppunum. Það getur verið t.d. Weather appið, Calendar, tónlistin eða Notes. Þú ræður hvað þú vilt hafa, og getur alltaf breytt og bætt, ráðið stærðinni eða tekið út þann Widget sem þú vilt með Widget Gellery. Í iOS 13 eru Widgets nú sjánlegir í  Today view, en breytingin í iOS14 mun eins og áður segir, færa Widgets yfir á aðal heimaskjáinn og gera þá enn flottari. Smart Stack Widget mun einnig gera upplifunina enn betri, en þar getur þú staflað saman þínum uppáhalds öppum, og haft þau saman í einum Widget, og einnig látið símann sýna þér mismunandi öpp frá morgni til kvölds í takt við þinn dag.

 

 

Apple kynnti einnig til leiks App Library, sem flokkar sjálfkrafa öpp saman í hópa og lista. Þetta er svolítið líkt því sem við þekkjum nú þegar, að geta hópað saman öpp í sérstakar möppur, eins og t.d. alla leiki í eina möppu. Munurinn er sá að App Library mun vera á sér heimaskjá útaf fyrir sig, og síminn sér um að flokka sjálfur í möppurnar á mjög góðan hátt. Nú mun einnig það að vera með 12 mismunandi heimaskjái stútfulla af öppum sem þú notar aldrei en vilt ekki eyða heyra sögunni til, en með nýrri stillingu muntu geta falið þá skjái og öppin raðast frekar upp í möppur í App Library. Einnig verður hægt að skoða öppin í lista frá A-Z (a-ö í hinum fullkomna heimi 😞). Og já, þú mátt eyða Duolingo appinu, við vitum alveg að þú notar það ekki…

Picture in picture er nú loksins orðið að veruleika hjá Apple. Það þýðir að þú getur notað símann á sama tíma og þú horfir á myndband, en þá mun rammi með myndbandinu svífa yfir hvar sem þú vilt á skjánum. Þá muntu einnig geta stækkað eða minnkað rammann, og falið hann en haldið áfram að hlusta á myndbandið. Þetta getur verið hentugt ef þú þarft að senda skilaboð eða skoða email á meðan þú skoðar myndbönd af Guðmundi Franklín á Youtube. Þetta mun einnig virka með FaceTime símtöl. Nú mun Siri heldur ekki taka upp allt plássið í símanum, en hún mun nú birtast neðst á skjánum sem lítil talbóla, og er hún einnig orðin 20x betri hjálpartæki en hún var.

 

Messages appið fékk einnig stóra yfirhalningu, og líkist það nú meira Facebook messages, jú eða uppáhaldinu okkar allra, Slack! Rétt upp hönd ef þú notar Slack ✋✋✋✋! Nú geturðu raðað, eða „pinnað“ þau skilaboð sem eru mikilvægari en nýjasta sms-ið frá Dominos. Búið til hópa, eða Groups, þar sem hægt er að „tagga“ vini, og einnig muntu geta svarað í þráð, og svo miklu fleira. Við skorum á íslendinga að nota Messages og MEMOJIS. Hættum að vera feimin. Búðu til Memoji í dag!

Apple tilkynnti einnig App Clip, sem er einskonar smærra-app í appi, en það mun gera þér kleift að fá aðgang að litlum hluta af appi þegar þú þarft á því að halda án þess að þurfa að sækja appið sjálft. Dæmi sem gefin voru á WWDC voru t.d. aðgang að bílastæðisforriti í gegnum NFC þjónustu eða aðgang að klippikorti á kaffihúsi. App Clips munu notast við „Sign in with Apple“ til að forðast að þurfa að búa til nýjan aðgang í hvert sinn sem þú notar nýtt App Clip. Til að nota App Clips mun Apple setja upp QR-kóða, sem þá annaðhvort fyrirtæki geta sótt um eða búið til, við vitum það ekki en. En þetta mun gera lífið auðveldara þar sem þú þarft ekki að fylla símann af öppum sem þú notar sjaldan.

 

AirPods Pro fá einnig uppfærslu, en þar mun það sem Apple kallar Spatial Audio bjóða uppá mun betri upplifun þegar horft er á t.d. bíómyndir eða annað. Einnig munu AirPods geta tengst tækjunum þínum mun hraðar, og skipst á milli þess að vera tengt iPhone, iPad eða Mac tölvunni þinni.

Heyrðu bíddu aðeins, síminn minn er að hringja, ég þarf að hætta að lesa þetta blogg og bíða eftir að síminn hætti að hringja.. nei! Eða jú, en bara þangað til í september! Með iOS14 verður loksins hægt að halda áfram þeirri afreyingu eða verkefni (eða að horfa á TikTok) á meðan að síminn hringir! Hver kannast ekki við biðina endalausu, síminn hringir, þú sérð hver er að hringja, úff nenni ég þessu? Og maður lætur símann hringja út skömmustulegur… þetta er heil eilífð, hvenær hættir þetta!? Þessi atvik munu heyra sögunni til með iOS14. En nú taka símtöl ekki yfir símann þegar hann hringir, heldur mun símtalið birtast efst á símanum eins og að fá notification. Þetta er kannski ekki svona dramatískt, en fyrir okkur sem kvíðin eru eða löt þá er þetta risastórt.

 

 

Það eru einnig fjöldinn allur af smærri uppfærslum. Safari á iOS 14 mun nú upplýsa þig um hvort að eitt af lykilorðunum þínum hafa lekið í gagnaleka, eða í gagnabroti. Svipað og Chrome gerir. Game Center er að fá nýja hönnun. Og það er nýtt Sleep mode sem kveikir á Do not disturb fyrir þig, minnkar birtuna á skjá símans og minnir þig á vekjaraklukkuna fyrir næsta morgunn. Mín uppáhalds smærri uppfærsla er Back Tap, en það gerir þér kleift að ýta tvisvar, eða þrisvar aftaná símann með einum putta og þá getur síminn t.d. tekið skjáskot, læst sér, hækkað eða lækkað hljóðið, og svo margt margt fleira sem þú getur stillt í Back Tap stillingum. Hentar mjög vel fyrir þá sem eru með litlar hendur 👐

Big Sur

Já. Þið lásuð rétt. Big Sur er nýjasta stýrikerfið í Mac tölvunni. Stærstu breytingarnar þar er aðallega útlitið á stýrikerfinu sjálfu. En það fékk „make-over“ og er bjartara, mýkra, og þægilegra í notkun. Notification Center er fallegra, og Widgets úr iOS14 munu vera í boði þar. Einnig fáum við Control Center sem við þekkjum úr símanum í tölvurnar. Við hlökkum til að kenna öfum ykkar og ömmum á þetta þegar tölvurnar uppfæra sig yfir nótt hjá þeim og þau vita ekkert hvað gerðist, gerðir þú þetta? Ég ýtti ekki á neinn takka, ég vil bara fá gamla aftur. Password? AppleID? Ég man það ekki…

Það er ljóst að september verður stór mánuður hjá Apple, og 2020 er risastórt ár fyrir tæknirisann. Við höfum fengið tvær uppfærslur á tölvum, en það er nýja MacBook Air, og MacBook Pro 13″, iPad Pro 2020 og nú nýtt stýrikerfi sem gefur ekkert eftir. Það verður gaman að fylgjast með í framtíðinni hvernig málin þróast. Svo er bara að næla sér í nýjan BMW á næsta ári til að nota Apple CarKey.

Fleira skemmtilegt