Macland opnar nýja verslun

27. nóvember 2021

Macland opnaði sína fyrstu verslun árið 2010 í gamla Sirkus húsinu, nánar tiltekið á Klapparstíg 30. Eftir stutt stopp á Laugavegi 17 fluttum við svo á Laugaveg 23 þar sem við höfum verið til húsa síðan árið 2014. Fjórum árum síðar ákváðum við að opna nýja verslun í Kringlunni. Þótt sú verslun sé lítil þá hefur hún skarað fram úr síðustu ár.

Sumarið 2021 keypti Macland rekstur á viðurkenndu Apple verkstæði (Apple Authorized Service Provider) og bættist þá við þriðja staðsetningin í Ármúla 7. Með beinum samningi við Apple höfum við náð markmiði sem við settum okkur við stofnun fyrirtækisins, en það var að geta stýrt allri þjónustuupplifun viðskiptavina okkar.

Síðan þá höfum við leitað að húsnæði sem gæti hýst alla okkar starfsemi á einum stað. Eftir að hafa kannað fjölbreytta möguleika undanfarna mánuði bauðst okkur að taka við stóru rými í Kringlunni sem hentaði okkar þörfum og framtíðarsýn fullkomlega. Þessi breyting gerir Macland kleift að veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu.

Dyrnar opna föstudaginn 3.desember að nýrri og glæsilegri verslun ásamt þjónustuverkstæði og skrifstofum á einum stað í Kringlunni. Þó mun verkstæðið okkar ekki flytja úr Ármúla 7 fyrr en í upphafi nýs árs vegna Covid faraldursins.

Macland, þessi litla hugmynd sem kviknaði í íbúð á Vífilsgötu árið 2009, kveður nú Laugaveginn í bili. Það er erfitt að kveðja miðbæinn eftir 11 ár í rekstri – tíma sem við erum afar stolt af – og þökkum við öllum þeim sem heimsóttu okkur þar.

Á sama tíma viljum við bjóða ykkur innilega velkomin í nýja og glæsilega verslun okkar í Kringlunni föstudaginn 3.desember.

Ástarkveðjur,
Macland

Fleira skemmtilegt