iOS 14 – ALLT SEM ÞÚ ÞARFT AÐ VITA OG MEIRA

25. september 2020

Apple tilkynnti komu iOS 14 í júní 2020, og kom það formlega út 16 september síðastliðinn. iOS 14 er ein stærsta iOS uppfærsla frá Apple hingað til, og er það stútfullt af nýjungun. Sérsniðinn heimaskjár með Widgets, uppfærslur fyrir núverandi öpp, uppfærsla á Siri, og miklu, miklu fleira.

Fyrst og fremst, þá er það uppfærslan á heimaskjánnum. Nú er kominn stuðningur fyrir Widgets, sem hafa hingað til aðeins verið til í Today view, sem er fyrsti skjárinn, á undan aðal-heimaskjánnum. Í iOS 14 getur maður núna bætt þessum Widgets við á heimaskjáinn, í mismunandi stærðum og gerðum. Smart Stack gefur manni þann kost að raða nokkrum Widgets saman í einn. Með Smart Stack notar iPhone upplýsingaöflun tækisins til að sýna þér þau öpp og upplýsingar miðað við tíma, staðsetningu og virkni yfir daginn. Ekki er þörf að hafa þá stillingu á, en maður getur valið að hafa smart rotate á eða ekki. Þú getur sett eins marga Widgets á eins marga heimaskjái og þú ert með, hvort sem það er veður, vinnutengt, íþróttir eða hreyfing, og margt fleira. Today view, þar sem að Widgets eru að finna, hefur einnig fengið uppfærslu, en þar finnur maður Widget gallery, og getur maður ákveðið hvaða Widget síminn sýnir í Today view, og einnig getur maður breytt þeim þar.

Fari maður alveg til hægri, eða á seinasta heimaskjáinn, finnur maður App Library, þar sem að öll öppin í símanum eru snyrtilega röðuð í möppur, sem maður getur einnig skoðað sem lista frá A-Z. (vildi að það væri Ö en þið vitið… Apple). Apple býr til möppur og raðar öllu snyrtilega í fyrir þig, eins og t.d. í Suggestions, Apple Arcade, eða Recently added. Öll öpp sem þú sækir fara beint í App Library en þú getur einnig sett þau á heimaskjáinn. Það besta við App Library er einmitt það að nú getur maður falið alla heimaskjáinna sem maður er búinn að fylla af öppum yfir árin, og haft þá bara t.d. einn heimaskjá með öllu því helsta, og svo restina í App Library. Þú getur svo valið að sýna heimaskjái sem þú hefur falið aftur ef þú vilt, en þeir eru aðgengilegir í gegnum „edit homescreen“, sem kemur þegar maður heldur lengi inni á appi, þar ýtir maður svo á punktana sem eru neðst á skjánnum, og færðu þá upp valmynd með öllum heimaskjáunum þínum.

Það sem margir iPhone notendur hafa kvartað yfir í mörg ár er það að þegar síminn hringir þá tekur símtalið yfir símann og gerir hann ónothæfann þangað til að maður svarar símtalinu. En nú þegar að símhringingar berast og Siri er virkjuð taka þær aðgerðir ekki lengur yfir allan skjáinn. Símtöl (og FaceTime) birtast í litlum dálk á skjánum á iPhone, svipað eins og notification, og á meðan Siri er virkjuð sýnir síminn lítið líflegt Siri tákn neðst á skjánum.

PiP, eða Picture in Picture hefur nú loksins verið bætt við iPhone, en það þýðir að þegar maður er að skoða myndband í símanum, eða að tala við manneskju (eða vélmenni okkur er sama) á FaceTime, þá hefurðu þann valkost að láta það fljóta yfir skjánnum á meðan þú notar símann. Þú getur minnkað og stækkað ramman á myndbandinu og haft hann hvar sem er á skjánnum, og einnig dregið hann alveg útaf, en látið hljóðið ennþá spilast.

Apple kynnti einnig App Clips með iOS 14, en með því geta notendur núna notað aðeins brot úr appi í stað þess að sækja það allt í App Store. Með App Clips getur þú nú t.d. leigt þér rafmagnsvespu, pantað borð á veitingahúsi eða borgað í stöðumæli, án þess að þurfa að sækja viðeigandi app í símann þinn. Við vitum að App Clips er ekki farið 100% af stað í bandaríkjunum og veltur það allt á hverju og einu fyrirtæki að útbúa það fyrir sitt app.

Fyrir þá sem nota Messages (sms) í símanum mikið, þá hefur það fengið gjörsamlega nýtt og betra útlit. Nú getur maður „pinnað“ mikilvæg skilaboð efst svo þau haldist efst á listanum. Einnig er hægt að svara ákveðnum skilaboðum inní samtalinu, sem er mjög hentugt í hópsamtölum. Í hópsamtölum er nú einnig hægt að gera „@“ á ákveðna manneskju í samtalinu til að beina skilaboðum beint á hana.

Memoji fékk líka uppfærslu, og er nú hægt að gera þá enn persónulegri með nýjum hárgreiðslum, höfuðfötum, andlitsþekjur og aldursbreytingum. Memoji eru einnig svipmiklari en nokkru sinni fyrr þökk sé endurbættri andlits- og vöðvabyggingu.

Með nýja watchOS 7 samhliða iOS 14 geta foreldrar nú sett upp cellular Apple Watch fyrir t.d. börnin sín eða eldri fjölskyldumeðlimi í gegnum Family Setup. En það er sérstaklega hannað fyrir börn og aðra til að nota Apple Watch án þess að eiga iPhone. Þannig geta foreldrar vitað hvar börnin sín eru, og hvort að amma eða afi séu örugg, en notendur fá tilkynningar um staðsetningu þeirra sem úrið hafa, og tilkynningar ef vá ber að dyrum, t.d. ef að einstaklingur með úrið dettur eða úrið nemur hærri blóðþrýsting en vanalega. Þá er hægt að grípa inní mun hraðar en áður.

Nýtt Translate app frá Apple er nú í boði, þar sem notendur geta nú talað beint inní og síminn þýðir það á því tungumáli sem er valið. Einnig er hægta að skrifa inn og láta símann þýða texta. Eins og er þá eru aðeins 11 tungumál í boði, 12 ef maður telur enskuna tvisvar (UK, US), og þá er íslenska auðvitað ekki þar inni, hvernig datt þér í hug að einu sinni halda það! Ha?

Uppfærð persónuvernd krefst þess að app-framleiðendur fái leyfi frá notendum áður en þeir fá aðgang að símunum okkar í gegnum staðbundið net (local wi-fi) og það eru einnig nýir möguleikar til að takmarka aðgang að völdum myndum eða veita öppum aðeins áætlaða staðsetningu notandans. Við mælum sérstaklega með því að skoða þetta og stilla þau öpp sem nota staðsetningartækni þannig að þau viti bara áætlaða steðsetningu, en ekki nákvæma. Þetta eru öpp eins og t.d. Instagram, Facebook, Snapchat og fleira. En auðvitað er betra að hafa þetta á í öppum eins og t.d. maps eða Photos. Öll öpp eru einnig skikkuð til að fá leyfi notenda áður en þau rekja þig í gegnum vefsíður og ný tákn birtast á heimaskjánum þegar forrit notar myndavél eða hljóðnema (lítill grænn/appelsínugulur punktur efst hægramegin). Við mælum með að prufa þetta og fara svo í Snapchat map, þá sérðu að þú ert staðsett/ur allt annarsstaðar en þú ert í raun og veru.

Til að finna þessar stillingar þá ferðu í:

-settings
-finnur appið sem þú vilt stilla*
-Location (sem er efst ef það er í boði)
-slekkur á Precise Location

Ekki öll öpp nota staðsetninguna þína, svo ef þú sérð ekki Location í því appi þá þýðir það að það app notast ekki við staðsetningartækni*

Apple bætti einnig við betra Safari lykilorðs-eftirliti sem gerir notendum kleift að vita hvort vistað lykilorð hefur komið fram í gagnabroti (e. data breach) ásamt innbyggðum Safari þýðingareiginleika fyrir vefsíður.

Með iOS 14 geta AirPods skipt sjálfkrafa á milli Apple tækja og fyrir AirPods Pro er nýr eiginleiki sem kallast Spatial Audio, en það virkar þannig að AirPods Pro nema staðsetningu símans og í hvaða átt þú horfir, og gefa manni þá tilfinninguna eins og maður sé á staðnum í myndbandinu. Það er ótrúlegt að prufa þetta. Þetta virkar aðeins með Dolby Atmos hljóði.  iOS 14 veitir einnig tilkynningar þegar rafhlaðan í AirPods eða AirPods Pro er nálægt því að klárast.

Sound Recognition, er mjög gagnlegur valkostur fyrir þá sem eru heyrnarskertir, eða vilja vera með varan betur á, en það gerir iPhone kleift að hlusta stöðugt eftir ákveðnum hljóðum, svo sem grátandi barni, brunaviðvörun, dyrabjöllu, bank á hurðina, ketti að mjálma, hundi að gelta og fleira. Þegar iPhone heyrir eitt af þessum hljóðum sendir hann viðvörun. Í Sound Recognition settings er síðan hægt að sjá lista yfir öll þau hljóð sem síminn getur hlustað á, og einnig hægt að slökkva á Sound Recognition.

Í iOS 14 er einnig nýr eiginleiki frá Apple, sem kallast Back Tap, en það er eiginleiki sem gerir þér kleift að tví, eða þrísmella með fingrunum aftaná símann, og fá þannig upp ákveðið app, kalla fram Siri, læsa símanum, eða taka screen shot svo eitthvað sé nefnt. Back Tap er er einstaklega hentugt fyrir þá sem hafa takmarkaða hreyfingu á höndum og þurfa hjálp við að komast í t.d. flýtileiðir og fleira. Back Tap virkar með iPhone 8, iPhone 8 Plus, iPhone X, iPhone XS, iPhone XS Max, iPhone XR, iPhone 11, iPhone 11 Pro og iPhone 11 Pro Max.

Í fyrsta skipti er nú hægt að stilla tölvupóst og vafraforrit frá þriðja aðila svo að síminn notist ekki sjálfkrafa við Safari. Það þýðir að þegar þú færð t.d. hlekk sendan í gegnum Facebook, þá opnast hann í þeim vafra sem þú hefur stillt á, en ekki Safari eins og áður, og þeir sem notast við Spark, Edison eða aðra póst-þjónustur geta nú notað það á einfaldari hátt.

iOS 14 er í boði fyrir iPhone 6s og upp.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa sér nánar til um allt það nýjasta sem iOS 14 hefur uppá að bjóða, þá er hér listi sem færir þig beint yfir á macrumors.com með ítarlegri upplýsingum um hvern og einn lið, auk annarra upplýsinga.

Fleira skemmtilegt