iMac 2020

Skrifað þann af Ísak Róbertsson

Apple tilkynnti í dag nýjan 27 tommu iMac með tíundu kynslóð af Intel Core örgjörvum, næstu kynslóð af AMD skjákortum, allt að 128GB af vinnsluminni, 1080p FaceTime myndavél, True Tone skjá með valkost um nano- áferð, T2 öryggisflögu, og fleira. Þetta mun vera öflugasta iMac tölvan til þessa, og verður nú, til mikillar gleði, standard að vélarnar komi með SSD diskum. Við fögnum því.

Við elskum allt tæknital, en þótt svo að við skiljum ekki helminginn af þessu sjálf þá er alltaf spennandi að lesa vörulýsingar með 3.6GHz Turbo boost Inter Core CPU autotrigger simulation metric sensation tracker stimulant system… ég fór kannski aðeins frammúr mér þarna í lokin, en þið fattið. Hér kemur sundurliðun af öllu því helsta sem iMac 2020 hefur uppá að bjóða. Þessir eiginleikar með Big Sur í haust verða ansi spennandi geri ég ráð fyrir.

  • 10. kynslóð af Intel Core örgjörva fyrir allt að 65 prósent hraðari CPU samkvæmt Apple. Þetta felur í sér allt að 10 kjarna valkost með 3,6 GHz hraða og Turbo Boost upp að 5,0 GHz en fyrri kynslóð iMac notaði 9. kynslóðar Intel örgjörva með allt að átta kjörnum.
  • Nýjasta kynslóð af AMD Radeon Pro 5000 skjákorti, með allt að 55 prósent hraðari frammistöðu en fyrri kynslóð, samkvæmt Apple.
  • Allt að 128 GB af vinnsluminni, samanborið við allt að 64 GB í fyrri kynslóð.
  • Allt að 8 TB SSD geymsla, samanborið við allt að 2 TB í fyrri kynslóð.
  • True Tone tækni sem aðlagar sjálfkrafa hvíta jafnvægið á iMac skjánum til að passa við litastig ljóssins í kringum þig. Apple segir að þetta muni veita náttúrulegri upplifun á skjánum.
  • Nano-Texture gler verður fáanlegt sem uppfærsluvalkostur. Þessi eiginleiki er einnig fáanlegur á Pro Display XDR og samkvæmt Apple á Nano-Texture að viðhalda skerpu, og endurkastar ljósi til þess að sporna gegn glampa.
  • 1080p FaceTime myndavél að framan, samanborið 720p frá fyrri kynslóð.
  • Sérsmíðuð Apple T2 öryggisflaga. Flagan athugar hvort átt hafi verið við hugbúnað sem hlaðið var upp í ræsingarferlinu.
  • Samkvæmt Apple vinnur T2 flagan einnig með hátölurunum, og stillir þá af til þess að fá betra jafnvægi, samsvörun og dýpri bassa

 

iMac 2020 notast við sömu hönnun og fyrri týpur, en seinna á árinu munum við kannski fá endurgerðan iMac með nýrri hönnun. Spennandi

iMac 2020 verður hægt að panta hjá Maclandi nú á næstu dögum.

Þessi grein er merkt: Blogg