California Streaming – iPhone 13 og meira

16. september 2021

 

Apple kynnti í fyrradag nýju iPhone 13 símana, iPad 2021 og nýjan iPad mini, Apple Watch Series 7 og allt það nýja sem þessi tæki munu bjóða upp á. Tim Cook var með geggjaða innkomu eins og alltaf, hann gekk úr eyðimörkinni og beint á sviðið í Apple Park, svolítið svona eins og mannkynið að taka skref af steinöld yfir á tækniöld, eða var náttúran sem hann steig úr táknræn fyrir allt það frelsi og alla þá fegurð sem iPhone 13 veitir okkur, og svo stígur hann inn á svið í Apple Park og það táknar þá allt það snyrtilega, einfalda og faglega sem iPhone 13 stendur einnig fyrir… Ég veit það ekki, kannski fannst honum þetta bara nett. Kynningin sjálf var rúmur klukkutími, og var ég sjálfur límdur við skjáinn allan tímann, nema þegar Fitness+ kynningin kom, ég eyði ekki tíma í það sem kemur okkur Íslendingum ekkert við (plís megum við samt fá Fitness+ á Ísland).

Nú er þessi óþarfa kynning á efninu búin, og dembum við okkur bara beint í það sem skiptir máli. Fyrst skoðum við iPad 2021 og glænýja iPad mini.

iPad 10.2″ og iPad mini

Apple kynnti til leiks hina árlegu uppfærslu á iPad 10.2″, sem er þeirra ódýrasti iPad, og nú eini iPadinn sem enn hefur home takka og er ekki með edge to edge display, eða skjá sem þekur yfir alla framhliðina. Hann heldur sömu stærðinni eins og hann hefur gert nú í nokkur ár, en fékk nýjan örgjörva, eða A13 Bionic örgjörvan, sem gerir hann enn kröftugri en hann var, og má þar nefna t.d. 20% meiri hraða í grafík, (e. GPU), sem þýðir að skjárinn skilar hraðari niðurstöðum hvort sem þú ert í leik, eða að skrolla á macland.is. Með nýja A13 örgjörvanum er nú einnig auðveldara að notast við Adobe forrit, eins og Adobe Fresco, eða öpp eins og Procreate, og rafhlöðuendingin er nú enn meiri, en þú átt að geta notað iPad 10.2″ í heilan dag án þess að þurfa að stinga honum í rafmagn.

Nú er einnig Center Stage komið í iPad 10.2″, en hvað er nú það? Center Stage er eiginleiki sem við sáum fyrst í iPad Pro sem kom út fyrr á árinu, en það er eiginleiki sem virkar með selfie myndavélinni, og gerir myndavélinni kleift að fókusa á þig betur, eða á þann sem er í mynd og fylgja þér eftir því hvernig þú hreyfir þig um herbergið, þannig að fókusinn er alltaf á þér, og sem dæmi ef að þú ert í mynd, og það kemur önnur manneskja fyrir framan iPadin, þá þysjar myndavélin út til að báðir aðilar sjást í mynd. Þetta er gert mögulegt með nýjum víðlinsum sem nú eru í iPad Pro línunni, og nú einnig í iPad 10.2″. Einnig tekur nýja myndavélin upp ennþá skarpari og flottari myndir, sem og myndavélin að aftan.

iPadOS 15

Einnig fengum við kynningu á iPadOS 15 sem gerir notkunina enn skemmtilegri með öllum þeim nýjungum sem þar er að finna, en þar má helst nefna nýja fjölverkavinnslu eiginleikan (e. multitasking). Nú getur þú notað mörg öpp í einu og stillt þeim hlið við hlið eða í split screen, rétt eins og á MacBook tölvunum. En það sem er einnig hægt er að draga fram eitt app í miðjuna og láta það fljóta yfir þeim sem þú ert nú þegar með í split screen, og svo getur maður búið til nokkra split screen, og flakkað á milli þeirra. Þetta er allt gert úr nýja Multitask menu sem má nú finna efst á skjánum. Widgets haldast á sínum stað og nú með uppfærðu útliti, auk þess sem við fáum app library í iPad, en það kom í iPhone með iOS14 á seinasta ári.

Quick note er einnig nýjung í iPad, en nú getur þú dregið upp á skjáinn note appið og látið það fljóta yfir hvaða appi sem þú ert í, t.d. ef þú ert að skoða tölvupóst, og þarft að muna eða skrifa niður upplýsingar þá getur quick note komið sér vel að notum, en til að fá upp quick note þarftu einfaldlega að notast við flýtileið á lyklaborði, control center, eða strjúka puttanum eða Apple pencil upp úr einu horni á skjánum. Quick note býr einnig yfir allskyns fleiri eiginleikum sem verður gaman að prufa.

FaceTime fékk fína uppfærslu, en nú er hægt að horfa á myndir saman eða hlusta á tónlist saman í gegnum SharePlay, þetta eru það sem ég kalla covid þróannir, en við erum sífellt að verða betri í fjarskiptum og er Apple framúrskarandi á þeim velli. Einnig er Spatial Audio komið í iPadOS 15 og virkar það þannig að ef þú ert í FaceTime með mörgum, að raddirnar frá þeim sem eru í spjallinu hljóma eins og þær séu að koma úr þeirri átt sem hver einstaklingur er staðsettur á skjánum þínum og gerir þannig upplifunina náttúrulegri og skemmtilegri. Þetta er allt svo skemmtilegt sjáðu til. Og, nú geta allir verið á FaceTime, sama þótt þú sért að koma úr Android eða Windows kerfi.

Live Text er einnig nýtt í iPadOS 15, en Live Text opnar á sniðugan hátt hagnýtar og gagnlegar upplýsingar í myndum, svo þú getur hringt, sent tölvupóst eða flett upp leiðbeiningum með því að smella á ákveðin texta á myndinni sem þú beinir myndavélinni að. Þetta verður einnig í boði í iOS 15. Myndavélin á iPhone og iPad er orðinn sífellt snjallari, og með Live Text bætist einnig við Visual Look Up, en það virkar þannig að þú beinir einfaldlega myndavélinni að ákveðnu blómi, dýrategund, eða hallgrímskirkju (vonandi, það væri kúl), og síminn eða iPadinn gefur þér hagnýtar upplýsingar varðandi efnið. Þetta og margt margt meira í iPadOS 15. Mjög spennandi, að öðru, iPad mini!

 

iPad mini, loksins aftur!

iPad mini fékk loksins að koma til leiks aftur eftir rúmlega tveggja ára fjarveru, og nú með endurhönnuðu útliti, og betri en nokkru sinni fyrr. Hann fær sama útlit og iPad Pro og iPad Air, A15 Bionic örgjörva, 5G, Apple Pencil 2nd gen stuðning og í fjórum gullfallegum litum. Kíkjum á þetta.

iPad mini er með 8.3″ skjá, sem er jafnframt stærsti skjárinn á iPad mini frá upphafi, en það er vegna þess að nú skartar hann „edge to edge display“, eða fulla skjáþekju. Apple Pencil er á sínum stað, á segli á hliðinni, og hleðst hann einnig þar. iPad mini fær einnig þann frábæra eiginleika að vera með Touch ID eins og iPad Air, en margir hafa saknað þess síðan Face ID tók við fyrir nokkrum árum. A15 örgjörvinn gefur iPad mini allan þann kraft sem hann þarf, og gerir það okkur kleift að spila magnaða tölvuleiki, skoða email á ógnarhraða, eða að nota photoshop og önnur orku-krefjandi forrit. Nú sjáum við líka 80% hraðari grafík, og 40% aukningu á vinnsluhraða, A15 er ekkert grín. Rafhlaðan endist einnig út allan daginn og meira en það. Center Stage er að sjálfsögðu líka í iPad mini, en á honum er 12Mp selfie myndavél, með víðlinsu, eða Ultra Wide víðlinsu, eins og Apple segir.

iPad mini mun skarta eins og ég nefndi áður, fjórum gullfallegum litum, og þar á meðal þremur nýjum, en það eru Space Gray (þessi klassíski dökk grái Apple litur), Pink, Purple, og Starlight, en það eru allir nýju litirnir. Starlight er nánast gylltur, eins og við höfum séð áður á iPad og MacBook Air.

Apple Watch Series 7

Nú geta hjólreiðamenn hoppað hæð sína, eða öllu heldur hjólað lengd sína af gleði. Í Apple Watch Series 7 er nú kominn margþráður stuðningur fyrir hjólafólk, og felur það helst í sér allar þær helstu mælingar sem hjólafólk þarf í sínum löngu reiðtúrum. Þar má sjá vegalengd, hraða og margt fleira. Apple Watch 7 er sterkasta Apple Watch hingað til, með frábærum heilsufítusum, hraðari hleðslutíma, eða allt að 33% hraðar, og nú í fjórum nýjum litum.

Skjárinn er nú stærri, sem gerir notkunina auðveldari og þægilegri, og einnig er hann orðinn bjartari. Úrið sjálft er jafnstórt og series 6, en nú þekur skjárinn lengra út til hliðar. Hann er nú orðinn 20% stærri en á series 6, og meira en 50% stærri en hann var á series 3! Geri aðrir betur. Nú er einnig kominn enn betri stuðningur fyrir innbyggða lyklaborðið, en þú getur núna notað „swipe“ eiginleikann til að skrifa, sem hentar þér reyndar bara þegar þú skrifar á ensku… Við þurfum að koma íslenskunni á þennan markað. Úrið er eins og fyrr segir það sterkasta hingað til, með tvisvar sinnum þykkari kristal en á series 6, og þolir það enn meiri högg, fullt af ryki og endalaust vatn.

Health appið er einnig orðið miklu meira healthy, og getur þú núna athugað hjartsláttinn einungis með því að snerta úrið með puttanum og það gefur þér niðurstöður á 30 sekúndum. Úrið hleðst einnig 33% hraðar, og tekur það um 45 mínútur að hlaðast uppí 80%. Apple Watch Series 7 mun klárlega slá í gegn, með stærri skjá, betri íþrótta og hreyfinga tækni, bættari heilsufítusum og styttri hleðslutíma, ég held að maður geti ekki beðið um meira.

iPhone 13!

Nýjir litir, betri myndavélar, betri skjár, minna notch (LOKSINS) og meiri fegurð. Þetta eru lýsingarorðin sem ég ætla að nota fyrir iPhone 13 línuna.

Síðan að iPhone 12 línan kom út í fyrra hefur maður beðið spenntur eftir iPhone 13 línunni, þannig virkar þetta bara. Einn sími kemur út, og þú getur ekki beðið eftir hinum. Reyndar væri ég að ljúga ef ég segði ykkur ekki að þessi tilfinning var lítið til staðar þegar iPhone 12 línan kom út, vegna þess að í fyrsta skiptið var kominn iPhone sími sem leit virkilega út eins og framtíðin, maður getur búist við að allt eftir iPhone 12 verður ein negla hver á eftir annarri. En nóg um bull, förum beint í það sem máli skiptir.

iPhone 13 var eins og við öll vitum kynntur í fyrradag, og þar sjáum við iPhone 13 mini, iPhone 13, iPhone 13 Pro, og iPhone 13 Pro Max, rétt eins og við sáum með iPhone 12 línuna. Breytingarnar eru ekki stórkostlega miklar frá iPhone 12, en þær eru nokkrar mjög áhugaverðar.

iPhone 13 og 13 mini

iPhone 13 skartar nú tveimur myndavélum á ská, ekki samhliða eins og á iPhone 12, en samkvæmt Apple er þetta háþróaðasta „dual camera“ kerfið hingað til. Einnig sjáum við sama örgjörva og í iPad mini, en það er A15 örgjörvinn góði. Það þýðir meiri hraði og betri rafhlöðuending.

iPhone 13 kemur í fimm glæsilegum litum, en það er Pink (já takk), Blue, Midnight, Starlight, og eins og alltaf Product Red. Símarnir eru allir með keramík blandaða glerið framaná sem Apple hannaði, og segja þau hjá Apple að þetta sé sterkasta glerið í snjallsíma á markaðinum í dag. iPhone 13 mini er eins og iPhone 12 mini, 5.4″ og iPhone 13 er 6.1″ eins og iPhone 12 var. Myndavélin hefur fengið góða yfirhalningu og er iPhone 13 með glænýja Ultra Wide linsu, sem tekur enn betri myndir á nóttinni, eða í lélegri birtu, og er búið að setja sömu stöðugleika tækni í iPhone 13 og 13 mini og var í iPhone 12 Pro og 12 Pro Max, en það þýðir að myndavélin helst stöðug jafnvel þótt að þú sért það ekki.

Cinematic Mode

Apple kynnti einnig Cinematic Mode, sem er ein besta uppfærslan á iPhone myndavélinni sem komið hefur. Kvikmyndagerðarmenn nota tækni sem kallast „rack focus“ en það þýðir að færa fókus frá einu myndefni til annars, og er það gert til að leiðbeina athygli áhorfenda í kvikmyndum. Nú getur þú kæri lesandi gert hið sama, tekið upp heila Hollywood bíómynd á iPhone 13. Það er nett, mjög nett. Þetta getur myndavélin gert á meðan þú tekur upp, en einnig er hægt að fikta í fókusnum eftir á. Þetta er fyrsti síminn í heiminum sem bíður upp á slíka tækni, og er undirritaður mjög spenntur að prufa (Balti viltu iPhone 13 frá Macland?). Allt efni sem tekið er upp í Cinematic Mode notast við Dolby Vision HDR.

Einnig er nú hægt að velja á milli fleiri ljósmyndastýla, en það þýðir að maður getur átt betur við myndirnar sem maður tekur og stillt myndavélina alveg eftir þínum þörfum. Selfie myndavélin hefur einnig fengið uppfærslu og er í henni sömu eiginleikar og í bakmyndavélinni, en það er:

 • Cinematic mode
 • Photographic Styles (ljósmyndastílar)
 • Dolby Vision HDR upptaka
 • Portrait mode
 • Night mode
 • Smart HDR 4
 • Deep Fusion
 • og fleira

Við mælum sterklega með að horfa á þessa stuttmynd sem var tekin upp á iPhone 13 með Cinematic Mode

iPhone 13 hefur einnig fengið lengri rafhlöðu endingu, en nú endist iPhone 13 mini í 1.5 klukkustund lengur og iPhone 13 í 2.5 klukkustund lengur. Til að fara yfir öll þau helstu atriði á því hvað A15 örgjörvinn er magnaður þá getum við nefnt helst að hann býður upp á ennþá meiri hraða í notkun, mun betri myndavéla eiginleika, ennþá betri rýmisgreind með myndavélinni, orkusparnað, enn snjallari öryggislausnir og er hann allt að 50% hraðari en aðrir örgjörvar á markaðnum. Já og auðvitað 5G stuðning, halló #Vodafone #NOVA #Síminn… Allt í gang, 5G mastur á hverju götuhorni.

iPhone 13 Pro og iPhone 13 Pro Max

Jæja, Proum okkur í gang eins og Apple orðar það. iPhone 13 Pro fær að sjálfsögðu enn betri myndavél, mun betri skjá, A15 örgjörvan, framúrskarandi þrautseigju og stórt stökk í rafhlöðuendingu. iPhone 13 Pro Max og 13 Pro halda sömu stærðum og áður en það er 6.7″ og 6.1″. Þeir koma í fjórum fallegum litum og þar á meðal nýjasta, og jafnframt fallegasta lit sem ég hef séð á síma, Sierra Blue. Hann er svo fallegur að blái Macland liturinn verður feiminn. Myndavélin er stórkostleg, og þar má nefna Cinematic Mode, eins og ég nefndi áðan, nýr Macro möguleiki sem er einungis í Pro línunni, og margt fleira sem gerir þetta að bestu snjallsíma myndavél hingað til. Þeir helstu eiginleikarnir eru:

 • Cinematic mode
 • Photographic Styles (ljósmyndastílar)
 • ProRes upptaka
 • Dolby Vision HDR upptaka
 • Portrait mode
 • Night mode
 • Smart HDR 4
 • Deep Fusion
 • og fleira

Glöggir sjá að ekki er mikill munur á Pro og ekki Pro, fyrir utan ProRes upptöku á Pro línunni. Hvað eru mörg Pro í því?

iPhone 13 Pro kemur nú með 1TB geymsluplássi (128GB, 256GB, 512GB og 1TB) og ætti það að vera meira en nóg fyrir ykkur sem ekki nota iCloud ennþá. ProMotion er einnig nýjung í iPhone en það þýðir að skjárinn aðlagast að þér og hvernig þú ert að skrolla eða hvað þú ert að skoða hverju sinni, og fer allt uppí 120Hz þegar þú ert að t.d. spila tölvuleik eða skrolla hratt í gegnum texta, en aðlagar sig svo t.d. niður í allt að 10Hz þegar þú ert að skrolla hægt, sem gerir upplifunina ennþá þægilegri. Skjárinn er nú 25% bjartari í dagsbirtu, og mun skarpari en áður. Rafhlöðuendingin er betri og endist nú iPhone 13 Pro í 1.5 klukkustund lengur, og iPhone 13 Pro Max í 2.5 klukkustund lengur en iPhone 12 Pro línan gerði. Það er magnað miðað við allar þessar stóru uppfærslur að rafhlaðan endist lengur en áður. A15 örgjörvinn er gjörsamlega með þetta.

 

Þar hafið þið það, og já, við vitum að þið eruð öll ólm í að komast í nýju tækin þannig svarið við spurningunni sem þú ert með í hausnum á þér núna er þetta:

iPhone forsala mun byrja á miðnætti fimmtudaginn 30.sept
Apple Watch – Ekkert staðfest, en Apple segir „coming this fall“, þannig haldið í hestana og fylgist vel með.
iPad 9th gen og iPad Mini – Fyrstu eintök munu ekki fara úr verslun fyrren í fyrsta lagi 24. september! Við munum kannski setja af stað försölu, þið verið að fylgjast vel með kæru landsmenn!
Við hlökkum til að sjá ykkur í Macland í haust, það verður sönn ánægja að koma þessum vörum í hendurnar á ykkur. Macland fyrir fólkið!

Fleira skemmtilegt