Apple lækkar verð á iCloud geymsluplássi. Áhugavert.

7. júní 2017

Í kjölfar WWDC ’17 þar sem Apple kynnti uppfærslur í hugbúnaði jafnt sem vélbúnaði hefur Apple einfaldað og lækkað verð á iCloud geymsluplássi.

1TB þrepið var fjarlægt og í stað kom 2TB þrep sem fékk sama verð og 1TB hafði áður, 9,99$ á mánuði. Í stuttu máli þá er verið að gefa notendum sem vilja geyma öll sín gögn í iCloud gríðarlega gott verð á þessari þjónustu.

Við í Macland lendum oft í því að horfa framan í döpur andlit þar sem „allar myndirnar af börnunum“ eða „brúðkaupið okkar“ er hreinlega horfið. Það hryggir okkur a.m.k. jafn mikið og viðskiptavini okkar að þurfa að tilkynna þeim að ekki hafi verið hægt að bjarga gögnum af símanum eða tölvunni. Sem betur fer gerist þetta sjaldan en það gerir þetta ekki auðveldara, því miður.

Að stilla iCloud backup á iPhone er ótrúlega einfalt og lang algengasta ástæðan fyrir því að viðskiptavinir eru ekki með þessar afritun virka er að á einhverjum tímapunkti komu þessi skilaboð á skjáinn. „Not enough storage“.


Öllum iCloud reikningum fylgja 5GB ókeypis, en það dugar skammt þegar nýir símar eru 32GB eða stærri og flestir eru með allt frá nokkrum GB upp í hundruði GB af ljósmyndum á sínum tækjum, hvort sem um er að ræða síma eða tölvu.

Eins og myndin hér að ofan er hægt að velja á milli Close eða Upgrade storage. Sem betur fer eru alltaf fleiri og fleiri sem velja Upgrade storage og velja sér geymslupláss sem hentar betur þeirra þörfum en þetta 5GB ókeypis pláss. Það eru samt því miður alltof margir sem velja Close því það „leysir málið hratt og vel“, þ.e. villuboðin fara af skjánum.

Þegar iCloud var kynnt til leiks var „skýjapláss“ ekki ódýrt. En það hefur lækkað gríðarlega hratt síðustu ár og nú tekur Apple risastórt stökk í áttina að því að gera gagnaafritun að algjörlega sjálfvirku ferli sem þú þarft ekki að hafa áhyggjur af. Nema jú ef plássið klárast.

Ný verðskrá fyrir iCloud í USA – ath. þetta verð gildir ef þú ert með USA Apple ID
50GB
: $0.99
200GB: $2.99
2TB: $9.99

Ný verðskrá* fyrir iCloud á Íslandi – ath. þetta verð gildir ef þú ert með íslenskt Apple ID
50GB: $1.23
200GB: $3.71
2TB: $12.39

*Verðmunurinn skýrist af virðisaukaskatti sem er innheimtur ofan á verðið fyrir þá sem eru með íslenskt Apple ID.

Ath. ef þú varst með 1TB leiðina þá fékkstu 2TB í dag, fyrir engan auka kostnað. Margir hafa vonað að Apple muni auka við ókeypis pláss í iCloud en það breyttist ekki í dag. Í iOS 11 og macOS High Sierra er hægt að deila 200GB og 2TB iCloud plássinu með fjölskyldunni með hinu skemmtilega Family Sharing, sem er þá orðið ansi ódýr lausn til að tryggja allri fjölskyldunni afritun á gögnum, pláss fyrir gögn í skýinu og geymslustað fyrir t.d. allar ljósmyndir heimilisins. Þannig notar undirritaður iCloud meðal annars. Ef öllum Apple tækjum mínum væri stolið sama daginn, þá væri það vissulega skellur. Á sama tíma væri ég öruggur um að öll gögn, þar með taldar myndir, væru örugg í geymslum Apple og ég væri kominn með aðgang að öllum þeim gögnum um leið og ég fengi ný tæki í hendurnar.

Fylgstu með okkur á Facebook, Twitter og Instagram.

Fleira skemmtilegt