iPad Air 4 vs iPad Pro

23. september 2020

Eins og við flest vitum, sem erum Apple megin í lífinu, þá voru margar nýjungar kynntar í seinustu viku hjá Apple, og af þeim nýjungum er það iPad Air 4 sem einna helst stendur upp úr. Auðvitað var Apple Watch Series 6 og fleira kynnt, en í þessari færslu viljum við aðeins kíkja nánar á iPad Air 4 og bera hann saman við iPad Pro 2020, en þeir eru jú keimlíkir eins og margir hafa auðvitað tekið eftir. Þá vaknar spurningin hver er munurinn?

iPad Air kom fyrst út árið 2016, og hefur alltaf deilt ýmsum eiginleikum með iPad Pro, en var alltaf töluvert ódýrari. Það breyttist heldur betur þegar Apple gaf út iPad Pro 2018, en þá kom fyrsti iPadinn sem hafði engan home takka, á honum var líka faceID og hann var ekki með ramma utan um skjáinn eins og allir iPadar áður. Nú hefur iPad Air bæst í þann hóp, og kemur hann með glæsilegum 10,9″ skjá, með engum ramma, en í stað FaceID þá fær hann uppfært TouchID, sem nú er að finna á lock takkanum, en það hefur átt heima á home takkanum í fyrri gerðum iPad og iPhone. Ef þú vilt fá stærri skjá hinsvegar, þá er iPad Pro málið, en hann færðu í 11″ og 12,9″.

 

Fyrir þá sem elska liti, og vilja ekki allt grátt eða silfur þá kemur iPad Air núna í fimm litum, og þar eru 2 alveg glænýjir litir frá Apple. Litirnir eru, Space Gray, Silver og Rose Gold, en það eru þessir klassísku, en nýju litirnir eru Green og Sky Blue.

 

iPad Air og iPad Pro hafa báðir true tone display, en fyrir þá sem þekkja ekki true tone, þá er það eiginleiki Apple skjáa til að stilla birtustigið sjálfvirkt eftir því hversu bjart eða dimmt er í rýminu. iPad Pro er með aðeins bjartari skjá en iPad Air, eða 600nits, á meðan iPad Air hefur 500nits. Endurnýjunartíðnin, (e. refresh rate) er hærri á iPad Pro, en á þeim er það sem Apple kallar Pro Motion. iPad Pro hefur 120hz endurnýjunartíðni, á meðan nýji iPad Air hefur aðeins 60hz endurnýjunartíðni. Því hærri sem þessi tíðni er, því minni viðbragðstími er á skjánnum þegar maður skrifar með penna, skrollar eða spilar leiki.

Ef við tölum um örgjörvana, þá hefur Apple sett glænýjan A14 Bionic örgjörva í iPad Air, en í iPad Pro er A12Z örgjörvinn. A14 er sex kjarna, en A12Z átta kjarna, sem þýðir að iPad Pro höndlar þyngri og kröfuharðari verkefni betur. En eins og er þá er A14 Bionic örgjörvinn nýjasti örgjörvinn sem Apple er að þróa þessar stundir, og hlökkum við til að sjá hvernig það fer.

Nú fær iPad Air líka loksins USB-C tengi, sem gerir honum kleift að tengja utanáliggjandi búnað, svo sem minnislykla eða flakkara, hraðari hleðslu og gagnaflutning. Þetta hefur aðeins verið í boði á iPad Pro áður.

Ef við snúum þeim báðum við þá sjáum við smávægis mun þar. En það eru myndavélarnar. Á iPad Pro er 12-megapixla myndavél, með annari ultra-víðlinsu. iPad Air hefur hinsvegar aðeins eina 12-megapixla myndavél og enga víðlinsu.

Annar lítill en mikilvægur munur fyrir suma eru hátalararnir. Á iPad Pro eru fjórir hátalarar sem bjóða uppá glæsilegt stereo hljóð, en á iPad Air eru aðeins tveir hátalarar sem bjóða uppá stereo hljóð þegar tækið er á hlið, eða það sem Apple kallar „landscape stereo audio“.

Það sem við gerum ráð fyrir að muni gera iPad Air 4 ennþá vinsællari er að nú styður hann Apple pencil 2nd generation og Magic Keyboard. En það hefur aðeins verið í boði fyrir iPad Pro hingað til, og aðrar gerðir iPadda hafa einungis fengið Apple pencil 1st generation stuðning.

Það sem skiptir marga máli er geymslupláss. Flestir vilja nú til dags hafa það meira en 64GB, en við lofum þér að 64GB er meira en nóg, og ef þú ert sniðug/ur þá kaupirðu þér stærra iCloud pláss og passar það að gögnin þín glatist aldrei. Að því sögðu þá mun iPad Air koma aðeins með 64GB og 256GB, en ekki 128 eins og hefur verið í boði áður. iPad Pro kemur hinsvegar með minnst 128GB og mest 1TB, með 256 og 512 þar á milli.

iPad Air 4 er væntanlegur í október, og verður hann aðeins ódýrari en iPad Pro, en á apple.com er hann settur á 599$, það er hægt að miða við það plús skatt og tilheyrandi verðhækkanir sem eiga sér stað við innflutning á apple vörum. iPad Pro er hinsvegar til í verslunum Maclands í dag, og er hann allt frá 179.990 kr. fyrir 11″ og allt frá 219.990 kr. fyrir 12,9″.

Fleira skemmtilegt