Öpp dagsins! (Apps of the day, Apps des Tages)

Skrifað þann af Ísak Róbertsson

Við hjá Maclandi elskum nýtt. Nýja síma, nýjar tölvur… ný öpp. Allt nýtt er næs. En auðvitað þarf allt þetta nýja og næs að vera skemmtilegt, og það er það sem við elskum.. nýtt, næs ooooog skemmtilegt. Heilaga þrennan eins og Máni kallar það.

Hér að neðan ætlum við að fjalla um nokkur mjög skemmtileg og sniðug (og ný, næs og var ég búinn að segja skemmtileg?) öpp! Allt frá orðabóka öppum fyrir iPhone yfir í app sem hjálpar þér með ruslið í Mac tölvunni þinni. Spennandi.

iOS forrit

Content Creator (Frítt) – Content Creator er app sem gerir þér kleift að búa til klippimyndir, myndir með texta og einnig “squared” myndir, eða í samfélagsmiðlastærð sem passa fullkomlega á alla miðla. Forritið gerir þér einnig kleift að bú til og flytja myndbönd beint á þá helstu samfélagsmiðla sem við notum í dag.

Lugo – See Who’s Listening (Fítt) – Lugo er nýtt app sem sýnir þér í rauntíma á hvaða tónlist fólk er að hlusta út um allan heim. Það er ansi áhugavert að sjá hvar í heiminum fólk er að hlusta á ákveðin lög. Appið er í dag aðeins virkt með Apple Music, en framleiðendur Lugo segjast vera vinna að því að stækka þjónustuna sína, þannig að Spotify virki með því líka, og einnig mun vera hægt að tala við fólk með skilaboðum innan Lugo í framtíðinni.

Gentle (Frítt) – Gentle er nýtt samfélagsmiðlaforrit sem er í beta prófunarstigi. Forritið gerir notendum kleift að skrifa nafnlausar beiðnir um hvað sem er í heiminum, sem þeir hafa áhyggjur af, líður illa með eða vilja einfaldlega ræða um. Aðrir notendur geta þá svarað með vinsemd og samúð, veitt stuðning eða einfaldlega rætt með þér hvað það er sem þú vilt ræða um. Framleiðendur Gentle eru með svokallaðan “spam” filter og einnig geta notendur tilkynnt til framleiðenda ef maður upplifir dónaskap eða ef fólk er með stæla og vesen. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt geta skráð sig í beta-forritið. Maður þarf að sækja app sem heitir TestFlight, en það er app sem leyfir þér að prufa beta-forrit/öpp.

Climb – English Vocabulary (Frítt) – Climb er tungumála-námsforrit sem eykur orðaforða þinn í ensku, með því að hjálpa þér að uppgötva, læra og leggja á minnið ný ensk orð. Þess má geta að þó að flestir fítusar Climb séu ókeypis, þá munu notendur geta gerst áskrifendur að þjónustunni til að halda áfram að æfa sig. Eftir sjö daga ókeypis prufuáskrift býður Climb uppá mánaðarlega, ársfjórðungslega eða árlega áskrift á 9.99$, 19.99$ og 59.99$. Við mælum með þessu ef þú vilt styrkja ensku kunnáttuna þína. It’s like… totally awesome.

Discard – A Memory Card Game (Frítt) – Discard er nýr og skemmtilegur minnisleikur með smá snúningi. Notendur fá þrjár sekúndur til að leggja á minnið ákveðin spjöld sem birtast á skjánum, og eiga svo að ýta á og velja rétt spjald til þess að komast áfram á næsta stig. Drepur tímann mjög vel.

Colorful Memories (Frítt) – Colorful Memories er ljósmyndaforrit sem getur umbreytt gömlum svarthvítum myndum í sína náttúrulegu liti á nokkrum sekúndum. Forritið notar AI (gervigreind) til að endurlita allar myndir í sinn upprunalega og náttúrulega lit og eykur jafnvel litaðar myndir til að gefa þeim sláandi áhrif. Við mælum með prufa þetta á gömlu myndina af afa og ömmu.

 


iPadOS forrit

LiDAR Scanner 3D (Frítt) – Þeir sem eru með nýja iPad Pro 2020 geta búið til 3D módel af nánast hverju sem er og exportað því í USDZ, OBJ, STL, PLY skjöl. Appið leyfir jafnvel notendum að taka 3D módel af eigin heimili. Þetta er einstaklega spennandi app, og sýnir það fullkomlega hversu háþróaðar myndavélarnar eru í iPad Pro 2020. Kynntu þér appið nánar hér.

 

Mac forrit

Wallpaperer for Reddit (Frítt) – Wallpaperer er sniðugt forrit sem getur sjálfkrafa stillt veggfóðurið þitt á desktop í tölvunni þinni á vinsælustu myndirnar frá uppáhalds Reddit samfélögunum þínum. Forritið gerir notendum einnig kleift að stilla hversu oft þeir vilja að veggfóðurið breytist og úr hvaða subreddits þeir fá veggfóður. Hentar best fyrir þá sem hanga á Reddit alla daga.

FitaDo – Calisthenics Workouts (Frítt) – FitaDo er líkamsræktarforrit í boði fyrir Mac, iPhone og iPad sem gerir notendum kleift að búa til og þróa ólíkar æfingarplön. Forritið gerir einnig notendum kleift að fylgjast með eigin framförum með tímanum. Forritið er til frítt, en einnig er hægt að fá það í premium pakka, og borga þá mánaðarlega eða árlega áskfrift fyrir 3.99$ eða 29.99$.

theBin (Frítt) – theBin er forrit sem samtengist ruslinu/trash á Mac til að skapa nýja og þægilegri upplifun. Helstu eiginleikar forritsins sem vert er að skoða eru t.d. sjálfvirk hreinsun (e. auto-cleanup) sem er eiginleiki þar sem ruslið tæmir sig sjálft eftir ákveðin tíma, og sjálfvirk “samþjöppunaraðgerð” sem þjappar ruslskrám sjálfkrafa til þess að spara pláss. Og öll viljum við meira pláss í tölvurnar.

Þetta er skemmtilegur listi, og mælum við með því að kíkja á þessi öpp. Einnig er alltaf gaman að skoða reglulega AppStore og sjá hvað er nýtt og skemmtilegt þar á bæ. Öppin eru ekki bara Instagram og Facebook… eða Storytell. Sendu okkur endilega póst á [email protected] ef þú ert með skemmtilegt app sem þér finnst að við eigum að kynna fyrir öðrum.