Ertu í vandræðum eftir uppfærslu í iOS 11?

Skrifað þann af Hörður Ágústsson

Á hverju ári síðan 2007 hefur Apple gefið út nýtt stýrikerfi fyrir iPhone, iPad og iPod sem kallast iOS. Núverandi kerfi heitir iOS 11 og kom út fyrr í haust.

Þegar hugbúnaðaruppfærslur eru kynntar frá Apple koma alltaf upp nokkur mál þar sem notendur upplifa og sjá tækin sín haga sér eitthvað skringilega eftir að uppfærsla er sett inn. Dæmi um slíkt er að rafhlaðan endist styttra, eða að forrit geta látið leiðinlega. Örfá dæmi eru svo um að tæki ræsi sig ekki upp eftir uppfærslu og þá er sorgin oft mikil enda erfitt að nálgast gögn af tækjunum ef þau klára ekki ræsingu.

Það fyrsta sem þú ættir að gera áður en þú skellir þér í uppfærslu, og þetta á við um öll raftæki sem geyma gögn, er að afrita gögnin þín, tryggja að þau séu örugg. iCloud afritunin er sú leið sem við mælum með en þó er hægt að nota iTunes í tölvunni til að afrita tækið. Undirritaður hætti því fyrir mörgum árum og því skulum við ekkert tala um þá aðferð hér.

Skref 1
Tengdu símann þinn við þráðlaust net (WiFi)

Skref 2
Farðu í Settings og smelltu á nafnið þitt efst uppi í valmyndinni og veldu iCloud. Ef þú ert að nota iOS 10.2 eða eldra þarftu að fara í Settings og fara neðar á skjáinn og velja iCloud.

Skref 3
Smelltu á iCloud Backup. Ef þú ert að nota iOS 10.2 eða eldra smelltu á Backup.
Hér á iCloud Backup að vera stillt eins og á myndinni. Ef ekki, smelltu á hnappinn og gerðu hann grænan.

Skref 4
Smelltu á Back Up Now. Haltu tækinu í netsambandi við þráðlausa netið þitt þar til afritun er búin og þú sérð „Last successful backup : Í dag kl. xx:xx“. Ef það kemur ekki þarna fyrir neðan þá hefur eitthvað klikkað og þá þarftu að fara aftur í gegnum þetta ferli.

Einhverjir munu segja núna : „En ég er ekki með neitt pláss lengur í iCloud“ og það þekkjum við vel sem vinnum í Macland. Lang algengasta skýringin á því af hverju tæki eru ekki afrituð.

Verðskrá Apple á iCloud plássi (verð frá 8.nóvember 2017)
50GB kosta 1,23$ á mánuði
200GB kosta 3,71$ á mánuði
2000GB (2TB) kosta 12,39$ á mánuði

Hér er hægt að lesa sér meira til um iCloud og hvernig er best að leysa vandamál með pláss

iCloud pláss er nefnilega hægt að nýta í meira en bara afritun á símum eða tölvum. T.d. er undirritaður með allar ljósmyndir í iCloud í gegnum Photos og því eru myndirnar mínar aðgengilegar mér á öllum þeim tækjum sem ég er með iCloud reikninginn minn uppsettan.

Uppsetning og rétt notkun á iCloud gerir þér kleift að nota tækin þín án þess að hafa áhyggjur af gagnatapi. Á hverri nóttu afrita allir iPhone á heimili mínu sig sjálfkrafa svo lengi sem þeir eru í hleðslu, tengdir við þráðlaust net.

En jæja, þá erum við búin að fara yfir grunnatriði afritunar á iPhone/iPad og erum tilbúin til að ræða um af hverju síminn þinn gæti verið leiðinlegur eftir uppfærslu í iOS 11.

Tökum dæmi, þú kaupir iPhone 6 árið 2014. Hann kom með iOS 8, svo kom iOS 8.0.1 og svo frv. Svo ári síðar kom iOS 9 og svo iOS 9.01 og svo frv… og svo kom iOS 10 og svo frv. og nú erum við stödd í iOS 11 og strax er búið að gefa út 11.1. Síminn þinn er því mögulega búinn að fá 25-30 uppfærslur frá því þú keyptir hann.

„En nú er ég með iPhone 7 frá því í fyrra og hann er samt leiðinlegur“ – sama gildir um það. Hann kom með iOS 10 og hefur fengið a.m.k. 10+ uppfærslur síðan þú keyptir hann.

Hvað er til ráða?

Undirritaður gerir þetta alltaf svona þegar nýtt kerfi kemur.
• Ég geri iCloud backup (sjá að ofan)
• Ég tengi símann við tölvuna með lightning kaplinum sem fylgdi í kassanum
• Nota Restore í stað Update.

Þegar tölvan er búin að setja nýtt stýrikerfi inn á símann þá ertu búin/nn að “strauja hann” og því fylgja honum engin vandamál frá fyrri uppfærslum. Síminn verður því alveg ferskur og gögnin koma inn í gegnum iCloud afritið sem við gerðum að ofan.

Við getum ekki mælt nógu mikið með þessari aðferð. Undirritaður uppfærir þó innan iOS 11 (úr 11.0 í 11.0.1 og svo frv.) með því að nota Software Update innan úr Settings á símanum. Það á ekki að þurfa að gera þetta nema þegar stokkið er á milli heillar tölu í útgáfu t.d. úr iOS 10 í iOS 11.

Ef þú ert ekki 100% örugg/öruggur með hvernig þetta virkar þá skaltu lesa þetta rólega yfir aftur og ef það dugar ekki til, sendu okkur línu á facebook eða í gegnum þjónustuvefinn okkar eða kíktu á okkur á Laugaveg 23. Við tökum vel á móti þér og leysum málið með þér.

Þessi grein er merkt: Blogg