Apple kynningin – samantekt

12. september 2017

Á hverju ári hittumst við hér og ræðum um iPhone kynninguna. Að þessu sinni var þetta stærra en áður. Það var reyndar búið að leka flestu því sem kom fram, en það dregur ekki úr gleðinni nema að mjög litlu leyti.

Þetta var fyrsta kynningin í Steve Jobs salnum í nýjum höfuðstöðvum Apple. Kynningin heppnaðist vel, eins og svo oft áður. Rennum aðeins yfir hvað gerðist í mjög stuttu máli.

iPhone 8

Fyrsti iPhone hét jú iPhone og svo hefur þetta verið 3G, 3GS, 4, 4S, 5, 5S, 6, 6S, 7 og svo 8. Myndarlegar uppfærslur á örgjörva, myndavélum, skjánum og nýir hlutir eins og bakhlið úr gleri sem gerir okkur kleift (loksins) að nota þráðlausa hleðslu. Þessi uppfærsla er smá eins og iPhone 7s, en með þráðlausu hleðslunni og glerbakinu erum við alveg sátt við að kalla hann iPhone 8.

iPhone 8 kemur út í Bandaríkjunum 22.sept en við búumst við honum hér á Íslandi í kringum mánaðamótin.

iOS 11 og watchOS 4

Ekki var nú farið neitt rosalega djúpt í það núna, en dagsetningar eru staðfestar. iOS 11 og watchOS 4 koma út 19.september.

Apple Watch Series 3

Úrið er nú mun minna háð símanum og er með innbyggðu LTE sem þýðir að þú getur hringt og tekið á móti símtölum og notað úrið á internetinu þó þú sért ekki nálægt símanum þínum. Þetta breytir notagildi Apple úrsins algjörlega. Einnig vorum við glöð að sjá Apple Watch geta streymt Apple Music án þess að síminn sé nálægt. Þetta er virkilega spennandi uppfærsla. Við búumst við Apple Watch í október.

Apple TV 4K

Helsta gagnrýni sem Apple TV 4 fékk þegar það kom út í fyrra var skortur á 4K (UHD) upplausn. Apple bætti úr því, setti meira kjöt á beinin og erum við persónulega næst spenntust fyrir þessari uppfærslu fyrir utan iPhone veisluna. Búumst við þessu seinna á árinu. Bandaríkin munu ganga fyrir eins og svo oft áður, en við gerum okkar besta til að koma þessu í sölu sem allra fyrst. Apple TV 4 verður selt áfram og einhver verðlækkun er væntanleg á því.

iPhone X – (iPhone 10)

Þá er það rúsínan í kynningarendanum. Þetta símtæki er búið að vera lengi á leiðinni. Hér er verið að kynna okkur fyrir Face ID sem kemur í stað Touch ID og home takkans. Þú opnar ekki lengur símann með því að nota fingrafar heldur þarftu bara að horfa á símann. Það kallar maður breytingu.

Apple kynnti einnig Super Retina Display sem er með 2436×1125 punkta upplausn, með Dolby Vision og HDR10.

iPhone X lætur okkur líða eins og Apple hafi tekið næsta skref í áttina að frekari þróun í farsímum. Síðustu ár hefur verið ágætis þróun, vissulega, en lítið um stór stökk. Þetta er stórt stökk.

A11 Bionic örgjörvinn gjörsamlega rústar A10 örgjörvanum úr iPhone 7 og 7 Plus og síminn er auðvitað líka með þráðlausri hleðslu. Face ID tæknin er ekki bara hugsuð sem öryggisatriði og til þess að leysa af hólmi Touch ID eftir mörg góð ár. Nei, þú getur líka notað Face ID tæknina til að senda HreyfiMoji eða Animoji. Hvern hefur ekki dreymt um að geta sent skilaboð á vini sína sem gamli góði kúkaemoji? Undirritaður er a.m.k mjög spenntur og þakkar Apple fyrir þessa snilld.

Myndavélarnar voru báðar uppfærðar. Að aftan ertu með 2 x 12 megapixla myndavélar með endurbættri tækni til að gera myndir stöðugri, minnka hreyfingu í myndinni. Apple kallar það dual optical image stabilization – ég heyrði bara : „myndirnar voru geggjaðar áður, en þær verða enn geggjaðri núna“.

Rafhlaðan fékk líka smá ást. 2 tíma auka rafhlöðuending miðað við iPhone 7.

iPhone X verður hægt að panta í USA í lok október og því líklegt að hann byrji að smeygja sér til Íslands fyrir jól.

Eins og áður, þetta var rosalega mikið af upplýsingum og okkur langaði að draga þetta örlítið saman fyrir ykkur. Ef þið hafið áhuga, sem ég mæli með að þið gerið, þá endilega kíkið á apple.com og skoðið betur þessar vörur. Einnig er þar að finna mikið af myndböndum og nánari upplýsingum um nákvæmlega hvað var að breytast í dag.

Við munum svo auðvitað láta vita um leið og við fáum upplýsingar um komutíma á vörum, verð og svo frv.

Hlökkum til að heyra í ykkur.

Fleira skemmtilegt