Apple kynning 9.sept – Hvað var kynnt?

9. september 2014

Jæja krakkar mínir. Oft hefur maður séð Apple vera í stuði, en síðustu 2 kynningar hafa verið algjörlega fram úr björtustu vonum. Vissulega voru orðrómar og lekar ansi nálægt því hvað var kynnt í dag en það dregur ekki úr því að hér erum við að tala um alveg ótrúlega vörukynningu. Þetta mátti sjá á bæði þeim fjölda sem mættur  var að fylgjast með kynningunni og hversu mikill áhugi fjölmiðla var. Kl. 07.00 að staðartíma í Cupertino voru fjölmiðlar mættir, tilbúnir í slaginn.

Kynningin byrjaði á því að hlaupa hratt í gegnum að iPhone 6 og iPhone 6 plus voru kynntir. Virkilega skrýtið að sjá Apple fara svona hratt í gegnum jafn mikilvæga vöru. Því næst, iOS 8. Jafn hratt. Hvað er í gangi?

Screenshot 2014-09-09 22.38.23

Svo kom það sem Apple vildi að við sæjum vel. Apple Watch. Þetta er vara sem tækniheimurinn hefur ekki skilið síðan Samsung kynnti Gear á markað seint árið 2013. Motorola kynntu Moto 360 fyrir stuttu og þá voru gagnrýnendur á einu máli, snjallúrið væri komið lengra í þróuninni. 9.september 2014 kynnir Apple sitt eigið snjallúr, Apple Watch sem mun koma á markað snemma árs 2015. Miðað við það vægi sem Apple gaf snjallúrinu í kynningunni í dag og tímann sem mun líða frá kynningu til komu þess á markað sýnir að Apple er ekki að tjalda til einnar nætur hvað varðar snjallúr.

Fyrstu viðbrögð eru komin á netið og eru þau yfirþyrmandi jákvæð. Spurningar um rafhlöðuendingu og hvort úrið sé vatnshelt er enn ósvarað en miðað við hvernig vörur Apple hafa komið inn á markaðinn býst maður ekki við öðru en að þessum 2 spurningum verði svarað fljótlega.

Screenshot 2014-09-09 20.47.11

En nú skulum við byrja á byrjuninni, iPhone 6 og iPhone 6 plus. Nú kemur iPhone í 16GB, 64GB og 128GB útgáfum og í báðum stærðum. iPhone 5s verður seldur áfram í 16GB og 32GB stærðum ásamt iPhone 5c sem heldur áfram í 8GB stærð.

iPhone 6 og 6 plus munu vonandi koma til landsins fyrir jól en engar upplýsingar hafa enn fengist frá birgjum þess efnis enn sem komið er. Hvað varðar verð á iPhone 6 og 6 plus þá er erfitt að segja til um það en iPhone 6 virðist detta inn á sama verði og iPhone 5s sem gefur vonandi vísbendingu um að verð hér heima haldist það sama eða mjög svipað. iPhone 6 plus er örlítið dýrari og því erfiðara að gera sér grein fyrir mögulegu verði á honum. En þetta mun allt koma í ljós á næstu dögum og munum við láta vita um leið og við höfum frekari upplýsingar.

iPhone 6 og 6 plus koma í gull, silfur og svörtu eins og 5s gerir. Undir húddinu eru miklar uppfærslur en þar ber helst að nefna uppfærðan örgjörva sem er 25% hraðari en iPhone 5s og grafíkin er 50% kraftmeiri. A8 örgjörvinn getur líka keyrt á meiri hraða án þess þó að valda aukinni hitamyndun. Enn betri myndavél en áður en þó sömu 8MegaPixlarnir og „kvartað“ hefur verið undan af aðdáendum annara vélbúnaðarframleiðenda. Okkar skoðun er einföld, megapixlar skipta ekki máli. Myndgæði gera það. Megapixlar eru ekki = myndgæði. Linsan er lykilatriði og Apple hefur sýnt það og sannað að með framúrskarandi linsu færðu miklu betri myndir en úr símum sem gaspra um fjölda megapixla. Enda hefur það sannast með því að iPhone er vinsælasta myndavél í heimi og með þessari uppfærslu verður hún enn betri.

Ef þú vilt skoða meira (og já það var sko miklu meira kynnt í dag) um iPhone 6 og 6 plus þá skaltu smella hér.

Svo var komið að iOS 8. Stýrikerfið kemur út þann  17.september og verður ókeypis uppfærsla fyrir alla sem eiga iPhone 4s, iPhone 5, iPhone 5c, iPhone 5s, iPod touch (kynslóð 5), iPad 2, iPad með Retina skjá (iPad 3 og 4), iPad Air, iPad mini  og iPad mini með Retina skjá. Hlaupið var frekar hratt í gegnum þessa kynningu enda var búið að fara yfir flest sem er að frétta úr iOS 8 á WWDC í sumar. Samt, frekar hratt hlaupið yfir.

Stundin sem allir höfðu beðið eftir kom svo loksins þegar Tim Cook sagðist vera með „one more thing“. Þetta er í fyrsta skipti síðan Steve Jobs lést, sem Apple notar þessi orð í kynningu. Steve gerði þetta auðvitað frægt á sínum tíma en þrátt fyrir mjög stórar vörukynningar síðustu ár hefur Apple ekki notað „one more thing“ fyrr en í dag. Slík er merkingin sem Apple setur í Apple Watch.

Snjallúrið verður sett á markaðinn snemma á næsta ári og miðað við tímann sem Apple gaf í Apple Watch er ljóst að Apple mun leggja gríðarlega vinnu í úrið á næstu mánuðum. Allt of flókið er að fara í gegnum alla möguleikana sem Apple Watch býður upp á en snillingarnir hjá The Verge náðu að koma þessu frá sér í ekk allt of löngu máli hér.

onemorething

 

Apple Pay sem var einnig kynnt í dag mun þó líklega ekki koma til landsins á næstunni en byrjað verður á bandaríkjamarkaði. Lausnin byggir á NFC tækninni og er snertilaus. Hægt er að lesa sér meira til um það hér.

Svo spiluðu U2 í lokin og þeir ásamt Apple gáfu öllum þeim sem eru með iTunes store aðgang eintak af plötunni. 500 milljón manns fengu gefins plötu frá einni vinsælustu hljómsveit síðustu áratuga. Einstakt framtak og verður áhugavert að sjá hvernig tekið verður við þessum fregnum.

Fleira skemmtilegt