Apple kynning 12.september

1. september 2017

Í dag sendi Apple út boðskort til blaðamanna og fleiri (a.m.k. ekki til okkar) á hinn árlega iPhone atburð sem haldinn er í fyrsta sinn í Steve Jobs leikhúsinu í Apple Park, nýjum höfuðstöðvum Apple í Cupertino.


Boðskortið fallega. Eitthvað er Apple að gefa til kynna með þessum litum… en hvað?

En það verður ekki bara iPhone sem mun fanga athygli okkar þennan dag. Apple mun væntanlega kynna á sama tíma uppfærslur á öllum stýrikerfum fyrir iPhone, iPad, tölvurnar og Apple Watch.

iOS 11
macOS High Sierra
watchOS 4
tvOS 11

Undirritaður er búinn að nota þessi stýrikerfi allt frá beta 1 á öllum tækjum síðan á WWDC í sumar. Á hverju ári nær Apple að toppa sig í útgáfu beta hugbúnaðar og get ég sagt með sanni ég hlakka til að fá lokaútgáfurnar í hendurnar miðað við hvernig beta prófunin hefur gengið. Hér áður fyrr gat maður lent í því að prentari virkaði ekki í mánuð, eða að WiFi tengingar voru nær ónothæfar. Þessi útgáfa hefur gengið algjörlega snurðulaust fyrir sig og hver uppfærslan á eftir annarri gert stýrikerfin hraðari, léttari og skemmtilegri.

Þó stýrikerfin muni taka mikið pláss í kynningunni og séu alveg þokkalega spennandi ein og sér þá er mest spenna fyrir iPhone kynningunni.

Talið er að Apple muni kynna iPhone 7s, iPhone 7s Plus og iPhone edition. Ásamt nýju Apple TV með 4K stuðning (UHD) og nýju Apple Watch.

iPhone 7s og 7s Plus verði þá uppfærðir eins og við höfum séð síðustu ár, lítilvægar breytingar á útliti en aðaláhersla lögð á að uppfæra innvolsið. iPhone edition er eitthvað sem er enn ekki alveg ljóst hvað er og hvað verður, en talið er að Apple muni gefa hann út sem 10 ára afmælisútgáfu iPhone.

Svona mun hinn nýi iPhone líta út skv. „orðrómi götunnar“

Við munum a.m.k fylgjast spennt með kynningunni og munum láta vita ef við fréttum af einhverju nýju og spennandi.

Að lokum minnum við á að það er ekki hægt að segja til um það ennþá hvenær nýr iPhone lendir á Íslandi en miðað við síðustu ár þá er lok september/byrjun október ekki slæm ágiskun. Við munum að sjálfsögðu tilkynna um það þegar við vitum meira!

Fleira skemmtilegt