Apple kynning 10. september 2019

Skrifað þann af Hörður Ágústsson

Í dag kl. 17 stundvíslega hófst árleg “iPhone kynning” Apple í höfuðstöðvum þeirra í Apple Park í Kaliforníu. Það var nóg að frétta og Tim Cook var ekkert að tvínóna við hlutina heldur henti sér bara beint í kynningar á nýjum vörum. Vaninn er að hann taki 5-10 mínútur í að þylja upp sölutölur á alls kyns vörum síðustu mánuði og blessunarlega var okkur sleppt við það í þetta skiptið.

Apple Arcade kemur í september fyrir aðeins 4,99$ á mánuði

Apple kynnti þessa nýjung reyndar fyrst á árlegri WWDC ráðstefnu sinni í júní en nú er komið á hreint að Apple Arcade verður komið í gagnið fyrir lok september. Arcade leikjasafnið verður aðgengilegt fyrir Apple TV, iPhone, iPad og á Mac. Á iOS og iPadOS eru leikirnir í Apple Arcade eingöngu fáanlegir þar í gegn og því ekki hægt að kaupa þá í gegnum App Store. Frekar áhugaverð nálgun og mun vonandi ýta þessari þjónustu hratt af stað. Verðpunkturinn er ekki af verri gerðinni, aðeins 4.99$ á mánuði og ef þú ert með Family Sharing virkt þá geta allt að 6 notendur nýtt sér Apple Arcade fyrir aðeins 4.99$. Apple mun bjóða notendum sínum upp á 1 mánaðar prufuaðgang.

 

Apple TV+ kemur í nóvember á aðeins 4,99$ á mánuði

Í kynningu sinni í mars fyrr á þessu ári gaf Apple okkur forsmekkinn af því sem þau kalla Apple TV+. Þessi sjónvarpsþjónusta hefur fengið töluverða gagnrýni frá þeim tíma enda hefur lítið heyrst frá Apple og orðrómur var á kreiki um að þetta yrði hreinlega einhver hörmung. Í dag svaraði Apple þeim gagnrýnisröddum frekar duglega. Nú þegar hefur verið tilkynnt um 6 Apple TV+ þætti og skv. Tim Cook hafa sýnishorn úr þeim verið skoðuð 100 milljón sinnum síðan þau voru birt. Það eru risastórar tölur í öllu samhengi. Apple mun bæði framleiða sitt eigið efni ásamt því að Apple TV+ mun innihalda bíómyndir, þætti og alls konar aðra afþreyingu. Undirritaður er gríðarlega spenntur fyrir þessu enda er Apple líklega það fyrirtæki í heiminum í dag sem er í hvað bestri fjárhagsstöðu og verður áhugavert að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.

Apple tilkynnti einnig í dag að meira en 100 lönd muni fá aðgang að þessari þjónustu (við erum að horfa á ykkur Apple…) og vonum við að Ísland sé þar á meðal. Opnunardagur verður 1.nóvember og verðið er aðeins 4,99$ á mánuði, og gildir það verð fyrir alla fjölskylduna eins og áður með Apple Arcade.

 

iPad 7.kynslóð kynntur til leiks

iPad hefur tekið yfir skilgreininguna á orðinu “spjaldtölva” og það er ekki af ástæðulausu enda langvinsælasta græjan í þessum flokki í heiminum. iPad hefur líka ótrúlega endingu og erum við í Macland reglulega að fá inn iPad Air 1 í rafhlöðuskipti en sá iPad kom út árið 2013. Í dag kynnti Apple svo arftaka hins 9,7″ iPad 2018 með 10,2″ iPad 2019.

Stóri munurinn á milli þessara árgerða er skjástærðin, nýr örgjörvi og auðvitað betri myndavél. iPad 2019 styður að sjálfsögðu Apple Smart Connector, Apple Pencil og er núna með A10 Fusion örgjörvanum. Við munum tilkynna formlega bæði hér, á Twitter, Instagram og Facebook um leið og við vitum meira um hvenær iPad 2019 lendir á klakanum en Apple gaf út 30.september sem daginn sem hann byrji að koma í verslanir í Bandaríkjunum. Því er ekki óeðlilegt að miða við að hann komi til landsins í október.

 

Apple Watch series 5 leit dagsins ljós

Tölum aðeins um Apple Watch. Undirritaður hefur átt allar gerðir af Apple Watch og með hverri útgáfu verður meira augljóst að “úrið” er aukaatriði í þessu samhengi. Um er að ræða tölvu á úlnliðnum, sem er líka úr. Apple lék sér einmitt með þessa skilgreiningu í dag í auglýsingu. Skulum líta aðeins á hana.

Apple Watch er nú í fyrsta sinn með “always-on” skjá sem þýðir að þú þarft ekki að hreyfa höndina eða smella á skjáinn til að sjá á hann. Þessi tækni sýnir alltaf hvað klukkan er og þær “flækjur” sem þú hefur sett upp sem aðalvalmynd á viðmóti úrsins. Í stuttu máli mjög gott og mjög svo tímabært að þetta komi í Apple Watch.

Einnig er úrið með innbygðum áttavita og gerir það forrit sem nýta sér þá kosti úrsins enn öflugri. Apple Watch series 5 með Cellular (LTE/4G) kemur nú með þeim valkosti að geta haft samband við neyðarþjónustur (112) í hverju landi fyrir sig án þess að síminn þurfi að koma nálægt því. Þessi útgáfa úrsins er því miður ekki enn í boði á Íslandi, en okkar tengiliðir segja að það stoppi ekki hjá íslensku fjarskiptafyrirtækjunum heldur sé það alfarið undir Apple komið að ákveða að þetta fari í gagnið hérlendis.

Útlit úrsins breytist ekkert frá Series 4 og kemur það alls ekki á óvart enda er það einstaklega vel heppnað. Nýir litir, nýjar tegundir af málmum í umgjörðinni ásamt nýjum ólum voru kynntar í dag. Ísland mun líklega ekki fá allar þessar gerðir til landsins og mest fannst undirrituðum súrt að sjá að Apple ætlar að opna fyrir möguleikann á því að setja saman sitt eigið Apple Watch í sínum eigin verslunum. Hér á landi er auðvitað engin slík verslun og því ólíklegt að þessi möguleiki komi með nýja úrinu.

Forpöntun byrjaði í dag í USA en við bíðum enn eftir skipunum frá Apple með hver næstu skref eru. Við munum tilkynna um það á öllum okkar samfélagsmiðlum að sjálfsögðu. Apple í USA gefur upp 20.september sem daginn sem úrið kemur í verslanir en við reiknum ekki með því fyrr en í lok sept, eða byrjun okt. Breytist sú spá, þá munum við láta í okkur heyra. Aðrar góðar fréttir af Apple Watch er að Series 4 er eins og áður segir skipt út fyrir Series 5, en Series 3 sem kom út árið 2017 heldur sínum stað og kostar frá 199$ í USA. Vonandi nær þessi lækkun til landsins því Series 3 úrið yrði með því virkilega góður valkostur samanborið við keppinauta Apple Watch.

 

iPhone 11 – tvær myndavélar ásamt nýjum litum

iPhone 11 myndavélin var þungamiðjan í þessari kynningu enda kom í ljós að síminn er með bæði víðlinsu og ofurvíða linsu. Þetta gefur notendum möguleikann á því að stýra aðdrætti (zoom) og myndrammanum (crop) í eftirvinnslu. Apple kynnti sömuleiðis nýja sjálfvirka næturstillingu sem umbreytir myndum teknum í lágri eða lélegri birtu algerlega. QuickTake er einnig nýr valkostur en þá er hægt að byrja að taka upp myndband strax með því að halda inni myndavélahnappinum. Myndbönd eru í 4K gæðum og 60 römmum á sekúndu ásamt því að hafa slo-mo, time-lapse og “expanded dynamic range” sem ég ætla að leyfa ykkur bara að þýða.

Myndavélin að framan fékk uppfærslu í 12MP víðlinsu í landscape og einnig er hægt að taka upp 4K myndbönd í 60 römmum á sekúndu ásamt slow-mo.

Litaúrvalið breyttist töluvert en iPhone 11 kemur í sex litum, svörtu, hvítu, rauðu, fjólubláu, grænu og gulu. Umgjörð símans var styrkt töluvert með nýrri aðferð skv. Apple sem gerir hann enn sterkari og ætti því að þola meira. Við mælum samt alltaf með því að hafa símann í hulstri. Á því leikur enginn vafi.

A13 örgjörvi, 1 klukkutíma meiri ending á rafhlöðu en í iPhone XS og verðið er 50$ lægra en iPhone XR í USA. Allt þetta, og svo allt sem við minntumst ekki á, gerir iPhone 11 að hrikalega flottri uppfærslu og það verður áhugavert að sjá nákvæmlega hvenær hann kemur til landsins og í hvaða magni. Hér er arftaki iPhone XR kominn og rúmlega það.

Apple byrjar forsölu í stærri löndunum á föstudaginn 13.september og fyrsta sending þar er þá væntanleg 20.sept. Við fáum svo meira staðfest fljótlega varðandi forsöluna hérlendis og munum svo sannarlega tilkynna um það um leið og okkur berast tíðindi.

 

iPhone 11 Pro/iPhone 11 Pro Max – þrjár myndavélar og nýr litur

iPhone 11 Pro myndavélin var jú aftur þungamiðjan í kynningunni enda kom það fljótt í ljós að þetta er ekki einhver smávægileg uppfærsla á myndavél. iPhone 11 Pro og iPhone 11 Pro Max eru arftakar iPhone XS og iPhone XS Max. Verðið er það sama og í fyrra í USA eða 999$ og 1.099$. Forsala hefst í USA og stærri löndum næstkomandi föstudag, 13.september. Ekki er enn vitað hvenær forsala hefst hérlendis.

Nýr litur var kynntur, dökkgrænn ásamt aðeins breyttum en klassískum Space Gray, Silver og Gold. Apple talaði mikið um nýja skjáinn en hann er kallaður Super Retina XDR og já þrjár myndavélar. Nú er ofurvíð (ultra-wide) linsa á bæði iPhone 11 Pro og iPhone 11 sem er sýnd í myndavéla-appinu sem 0,5x hnappur. Einfalt að “zooma” út og sjá meira og taka víðari myndir. Ofurvíða linsan er með f/2.4 ljósop og 120-gráðu sjónarhorn. Myndavélaáhugafólk hvetjum við til að skoða heimasíðu Apple fyrir nánari upplýsingar um þessa uppfærslu, því hér er um að ræða hluti sem undirritaður hefur ekki algjörlega fullan skilning á. Nema jú að þetta er svakaleg uppfærsla eins og sjá mátti á kynningunni. Myndirnar, sem komu frá fagaðilum sem voru svo heppnir að fá að prófa græjuna fyrir Apple, voru hreint út sagt stórkostlegar.

Nætursýn var uppfærð eins og í iPhone 11 en það sem mest kom á óvart var “Deep Fusion” tæknin sem Apple mun bæta við iPhone 11 Pro í hugbúnaðaruppfærslu síðar í haust. Þar er síminn látinn taka 9 myndir í einu og hugbúnaður Apple setur þær saman á innan við sekúndu og birtir á skjánum. Niðurstaðan var mynd sem erfitt er að trúa að komi úr snjallsíma og Phil Schiller hjá Apple lýsti því sem ákveðinni sturlun að geta framkvæmt þetta. Myndavélin að framan fékk uppfærslu í 12MP og er einnig víðlinsa ef símanum er snúið á hlið til að koma fleirum inn í “selfie” rammann. Einnig er slo-mo í boði í fyrsta sinn á þeirri myndavél.

iPhone 11 Pro er að sjálfsögðu með A13 örgjörvanum frá Apple og allt er þetta mun hraðvirkara en í XS og XR síðan í fyrra. Apple segir að örgjörvinn geti framkallað 1 billjón aðgerða á sekúndu, hvað það þýðir í raun og veru mun koma í ljós. Undirritaður er ekkert að grínast með það því nú munu framleiðendur hugbúnaðar fá þessa græju í hendurnar á næstu vikum og úr því munu birtast einhverjir áður óþekktir hlutir í þeim forritum sem við notum á hverjum degi. Í stuttu máli þá er staðan þannig að iPhone 11 Pro er hreinlega kraftmesti snjallsími í heiminum, skv. Apple.

Apple montaði sig ekki bara af auknum krafti og hraða heldur líka hversu mikil aukning hefur náðst í rafhlöðuendingu. iPhone 11 Pro nær allt að 4-5 tímum lengri rahflöðuendingu en iPhone XS, það munar um minna. Einnig fylgir nú með iPhone 11 Pro hleðslutæki sem er 18W og með USB-C tengi öðrum megin en því miður enn með lightning tengi hinum megin. USB-C verður því að bíða til ársins 2020 sýnist mér. 18W hleðslutæki þýðir bara að síminn er styttri tíma að fylla á rafhlöðuna.

Eins og með iPhone 11 þá er iPhone 11 Pro framleiddur með aukið þol fyrir höggum, vatni og almennum leiðindum og svo var Face ID uppfært þannig að það virki enn hraðar en áður og frá fleiri sjónarhornum.

Myndbandsupptakan í iPhone 11 Pro fékk sérstaka athygli og þessar þrjár myndavélar gera ótrúlega hluti varðandi liti og dýpt. Nú er hægt að taka upp 4K myndbönd með “extended dynamic range” í 60 römmum á sekúndu.

 

iPhone vörulínan hjá Apple í haust

iPhone 8 og 8 Plus halda áfram hjá Apple, en ekki hjá okkur. Við erum búin að segja bless við Home takkann á iPhone.

Áherslan hjá okkur verður eftir sem áður á nýjustu vörurnar frá Apple og því erum við gríðarlega spennt að fá nánari upplýsingar frá Apple til að deila með ykkur varðandi forsöluna okkar. Hún verður með sama sniði og í fyrra, mun fara eingöngu í gegnum macland.is og verður kynnt skilmerkilega á öllum okkar miðlum.

 

iOS 13 – iPadOS og macOS 10.15 Catalina

iOS 13 og og iPadOS voru mikið rædd í dag og munu koma út 19.september. iOS 13.1 og iPadOS 13.1 kemur svo væntanlega út 30.september en það er alveg ljóst að Apple hefur eitthvað runnið á hliðina með þessar uppfærslur því ekki einu orði var minnst á macOS Catalina (10.15) í dag. Einnig er venjan sú að daginn sem iPhone er kynntur þá komi út svokallaður Gold Master af iOS og macOS en í dag bólar ekkert á þeim. Við hvetjum alla notendur til að nýta sér þjónustu iCloud og afrita öll gögn þar í gegn, bæði myndir og svo auðvitað sjálfan símann og allar stillingar. Ef þú ert ekki með iCloud afritun í gangi í dag þá mælum við með að þú smellir hér strax. Það er afar sjaldgæft að hugbúnaðaruppfærslur valdi óskunda en það er aldrei hægt að vera of ábyrgur notandi og iCloud afritun er það einföld að það er eiginlega skammarlegt að hafa ekki nú þegar virkjað hana. Ef þú þarft einhverja aðstoð við uppsetninguna og leiðbeiningar Apple duga þér ekki þá bjóðum við þér að koma til okkar í Macland og við aðstoðum þig við þetta.

 

Ef þú nennir svo ekki að lesa þessa grein (sorry, hefði kannski átt að setja þetta fremst í fréttina) þá er hér örstutt útgáfa frá Apple af kynningu dagsins.

Þessi grein er merkt: Blogg