Airpods – fyrstu kynni

Skrifað þann af Hörður Ágústsson

Samhliða útgáfu iPhone 7 og 7 Plus kynnti Apple til leiks AirPods, þráðlausa útgáfu af hinum vinsælu Apple EarPods. Þetta eru fyrstu þráðlausu heyrnartólin sem Apple framleiðir og því mikil spenna í loftinu þegar pakkningarnar voru opnaðar. Hvernig tekst Apple að leysa hið ömurlega ferli sem “Bluetooth pörun” er.

Við það að taka AirPods úr kassanum og opna hann þá kom strax á skjáinn á símanum mínum að það væru AirPods í næsta nágrenni. Þessi mynd stoppaði svo stutt á skjánum að ég rétt náði að taka skjámynd. Í stuttu máli, að tengjast AirPods er grín, það er svo auðvelt.

Til viðbótar þá kom mér skemmtilega á óvart að AirPods höfðu þá tengst sjálfkrafa á öll tæki sem eru sett upp með iCloud reikniginn minn. Þetta var kynnt af Apple á sínum tíma en ég hafði gleymt því. Þetta gerði uppsetninguna enn skemmtilegri.

Eins og svo oft vill vera með vörur frá Apple þá eru allar upplýsingar mjög aðgengilegar og auðveld að sjá stöðuna á rafhlöðum bæði í AirPods sjálfum og svo hleðsluboxinu sem er í raun ein mesta snilld sem ég hef séð lengi. Förum aðeins betur yfir það hér að neðan.

Hleðsluboxið er mjög svipað að stærð og glerboxið sem kemur utan um gömlu EarPods þannig að áhyggjur mínar um að það væri mögulega óþægilegt að hafa þetta í vasanum alltaf voru óþarfar.

Myndin gerir þessu ekki nægilega vel skil en þetta er ekki mikið stærra en lítill eldspýtukassi.

En snúum okkur þá að því sem skiptir einna mest máli. Hvernig er að nota AirPods og hvernig eru hljómgæðin?

Ég er sjálfur mikill hljóðnörd og er ekki hrifinn af ódýrum heyrnartólum því þau eiga til að valda mér gríðarlegum vonbrigðum og ég er viðkvæmt blóm í hafsjó lífsins. En já, AirPods ollu mér ekki vonbrigðum. Þau eru frábær. Tónlist, símtöl og Siri notkun kemur ótrúlega vel út.

Handfrjáls búnaður hefur ekki verið upp á pallborðið hjá mér síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið en ég get notað AirPods. Sem er í raun ótrúlegt því ég hata handfrjálsan búnað. Hvernig Apple blandar saman möguleikum á að nota AirPods sem heyrnartól og / eða handfrjálsan búnað er einmitt trixið. Ég get haft einn AirPod í eyranu og talað í símann. Eða báða. Skiptir ekki máli. Svo ef ég er að hlusta á tónlist og tek annan AirPod-inn úr til að tala við einhvern face-to-face þá stoppar tónlistin að sjálfsögðu strax og fer samstundis í gang þegar ég set AirPod-inn aftur í eyrað.

Rafhlöðuendingin er það góð að ég er að hlaða þau á 2-3 daga fresti og ég nota þau mjög mikið. Virkilega sáttur við þessa endingu og hvernig Apple leysti hleðsluna með því að gera boxið utan um AirPods að hleðslustöð er lítið annað en tær snilld. Boxið hleður þú með lightning kapli og þá geturðu stungið því í tölvu eða hvers konar hleðslutæki sem tekur USB tengi.

Í stuttu máli þá er þetta vara sem kom mér gríðarlega á óvart. Ég hef ekki verið aðdáandi Apple EarPods í gegnum tíðina, hefur þótt þeir óþægilegir og passa illa í eyrun á mér. Stór hluti af erfiðu sambandi mínu við Earpods hefur líka verið snúran. Ég þoli ekki snúrur. En það er eins og eyrun á mér hafi breyst eða Apple einhverju breytt í hönnuninni (sem þeir hafa reyndar ekki gert) eða að snúran skipti svona miklu máli. AirPods smell passa í eyrun á mér.

Ég sá ekki fyrir mér að verða svona hrifinn af AirPods og ljóst er að markaðurinn er sammála mér enda er Apple búið að stórauka framleiðsluna á vörunni til að mæta eftirspurn.

AirPods lenda hjá okkur strax eftir áramót í sölu og getur þú pantað þér eintak hér 

Þessi grein er merkt: Blogg