WWDC 2015 – 8.júní

4. júní 2015

Nú styttist heldur betur í WWDC en mánudaginn 8.júní mun Apple kynna þær nýjungar sem eru á döfinni hjá fyrirtækinu. Mjög líklegt er að atburðinum verði streymt á Apple TV og svo á netinu almennt. Við verðum á vaktinni hér og á Twitter og Facebook á meðan því stendur. #appleis hashtagið hefur orðið fyrir valinu þar.

Undanfarin ár hefur áherslan á þessum kynningum verið á nýja útgáfu af iOS (stýrikerfinu fyrir iPad, iPhone og iPod Touch) ásamt nýrri útgáfu af Mac Os X. WWDC er alheimsráðstefna Apple fyrir forritara og því er fókusinn auðvitað meira á vörum/þjónustu sem því tengjast.

En hvað erum við að fara að sjá?

20140602_wwdc-logo_0129-640x426

iOS 9

iOS 8 kom út haustið 2014 og því er nær öruggt mál að fyrsta útgáfa af iOS 9 verði kynnt þann 8.júní. Útgáfan verður svokölluð „developer preview“ eða kynningarútgáfa fyrir forritara. Sagan segir að nú séu áherslunar hjá Apple ekki að koma með mikið af ótrúlegum nýjungum í iOS kerfið heldur snúi breytingar meira að stöðugleika og hraða. Sögusagnir eru uppi að eldri iPhone týpur, t.d. iPhone 4s og 5 komi sérstaklega vel út úr þessari uppfærslu sem ætti að gleðja þá sem enn eiga og nota þá síma.

Apple Watch var náttúrulega ekki komið fram á sjónarsviðið í fyrra og því má telja líklegt að iOS 9 innihaldi mun meira af tengingum við Apple Watch en fyrirrennari þess, iOS 8. Undirritaður kallar þó eftir fleiri möguleikum á „heimaskjánum“ en mín persónulega skoðun er að Google hefur vinninginn þar enda er hægt að skipuleggja heimaskjáinn á Android símum nær algjörlega eftir duttlungum hvers og eins. iOS hefur verið mjög svipað frá „fæðingu“ eins og sjá má á þessari mynd. Mismunandi „núansar“ eða blæbrigði en mjög svipað á milli kerfa.

Z9dCA7D

MAC OS X 10.11

Ef Apple heldur áfram með sömu hefðir í nafngiftum stýrikerfa ættum við að sjá 10.11 mæta á sviðið á WWDC. Mac Os 10.9 var fyrsta stýrikerfið fyrir tölvur frá Apple í 10.X nafngiftinni sem hét ekki eftir einhvers konar kattategund og kallast það Mavericks. Líklega verður nafnið á 10.11 í þá áttina en Apple hefur sótt um einkaleyfi á töluvert mörgum örnefnum í Kaliforníuríki, t.d. Mammoth, Big Sur, Tiburon og Sonoma. Ekki væri nú leiðinlegt að sjá kerfið 10.11 Solvang, en það er einn furðulegasti bær Kaliforníu með gríðarlega mikinn skandinavískan blæ, en það er önnur saga. Sama gildir hér og um iOS 9, en ekki er talið að hér verði miklir landvinningar í nýjum „fítusum“ en fókus settur á hraða og stöðugleika. Apple Watch tengingar varða væntanlega fleiri en áður enda er Continuity eitthvað sem Apple ætlar sér stóra hluti með í framtíðinni. Hugmyndin á bak við Continuity er að þú getir tekið upp hvaða Apple tæki sem er og haldið áfram að vinna í því án þess að þurfa að vista eða senda þér skjöl á milli tækja.

Apple TV og App Store

Apple TV er nú á tugþúsundum íslenskra heimila sem er ótrúlegt þar sem ekki neitt í Apple TV er í boði fyrir íslenskan markað skv. þeim þjónustuaðilum sem þar eru inni. Samt sem áður virkar Netflix, Hulu, HBO Now og fleira gríðarlega vel ef keypt er þjónusta hjá Playmo.tv. Þjónustan kostar aðeins 5$ á mánuði og hefur undirritaður nýtt sér þjónustuna í um 2 ár núna með frábærum árangri. Apple TV kom fyrst út árið 2006 og þá var það með innbyggðum hörðum disk og meira hugsað sem „Media center“ út frá því að notandinn myndi kaupa bíómyndir og tónlist í gegnum iTunes búðina í tölvunni og flytja yfir á Apple TV. Þróunin síðan þá hefur verið hröð og í áttina að streymisþjónustum. Undirritaður á fleiri tugi kvikmynda sem Apple „geymir“ fyrir mig og ég get sótt á tölvur eða iOS tæki, en aðeins streymt í gegnum nýjustu kynslóð Apple TV. Persónulega þykir mér þetta áhugaverðari lausn því ég ber enga ábyrgð á því að passa upp á gagnaafritin eða neitt slíkt. Ég horfi bara þegar ég vil horfa. Apple TV 2 kom svo út um haustið 2010 og Apple TV 3 svo í mars 2012. Lítil uppfærsla snemma árs 2013 telst varla með og því eru rúm 3 ár síðan Apple TV var uppfært. Því er nær öruggt að Apple TV muni fá uppfærslu á WWDC 2015.

Viðmótið á Apple TV hefur tekið miklum stökkbreytingum frá fyrstu útgáfu en flestir eru sammála að það þurfi töluvert meira til þegar „Apple TV 4“ kemur loksins út. Helsta ósk notenda er að geta sett inn svokölluð 3rd party forrit, eða forrit frá öðrum en Apple sjálfum. Þetta er mjög líklegt að gerist enda væri App Store á Apple TV með leikjum og forritum eitthvað sem undirritaður svitnar á efri vör af spenningi yfir. 4K stuðningur, ný fjarstýring og auka geymslupláss er ekki endilega eitthvað sem kveikir elda í lendum vorum, en er eitthvað sem Apple þarf líka að uppfæra til að halda sér í forystu á þessum markaði.

Apple Watch

Eins og einhver gæti hafa tekið eftir þá kom Apple Watch út í apríl á þessu ári og enginn vafi er á því að Apple hefur tekið snjallúramarkaðinn með sniðglímu á lofti. Á einum degi í apríl 2015 seldi Apple jafn mörg snjallúr í forsölu heldur en seldust allt árið 2014 hjá öllum öðrum framleiðendum. Það eru tölur sem fá mann til að svima.

Uppfærsla á stýrikerfi Apple Watch verður að teljast líkleg en 1.0 útgáfan og svo síðar 1.01 útgáfan voru fínar, en þó með töluverðu af litlum „böggum“. Apple Watch OS 1.1 verður því mjög líklega kynnt á WWDC með enn fleiri forritum og möguleikum.

20140526_lust-list_0057-640x404

Homekit

Homekit, hið gleymda kerfi frá Apple, var kynnt á WWDC 2014 og í raun hefur ekkert heyrst meira eftir það. Homekit býður forriturum möguleikann á því að þróa hugbúnað á móti vélbúnaði til að stjórna flestum hlutum heimilisins, t.d. lýsingu, bílskúrshurðinni, hitastigi og svo frv. Líklegt verður að þykja að Apple muni leggja áherslu á Homekit á WWDC 2015.

Apple Pay

Við Íslendingar þekkjum Apple Pay í raun bara úr fjarlægð enda er það ekki í boði á Íslandi og engar krókaleiðir í boði fram hjá því. Hér á Íslandi þurfum við ekki að hafa áhyggjur af Apple Pay næstu árin enda engar líkur á því að Apple opni fyrir þessa þjónustu á þeim örmarkaði sem Ísland er, a.m.k. á næstunni.

Beats

Beats bættist í safnið hjá Apple í fyrra og líklegt má þykja að Apple muni setja sitt vörumerki fyrir framan, Apple Beats, bæði í samhengi við tónlistarþjónustuna og heyrnartólin sjálf. Mikið er rætt um mögulega streymisþjónustu til að keppa við Tidal og Spotify en þá eru Pharrell, Dr. Dre og Drake nefndir í því samhengi sem einhves konar „celebrity“ plötusnúðar. Beats Music er ekki í boði á Íslandi en virkar eftir krókaleiðum, en þjónustan hefur legið í dvala síðan Apple keypti Beats, þannig að uppfærsla á Apple Music, Beats Music eða Apple Beats mun klárlega verða kynnt fyrr en síðar.

Skot í myrkri

Eftir öll árin með Steve Jobs og hans klassíska „One more thing“ er vonin alltaf sú að eitthvað óvænt gerist á þessum kynningum. Því miður þá hefur undanfarin ár verið mjög auðvelt að finna út hvað Apple er að fara að kynna og því eru þessi atriði hér að neðan nefnd í hálfgerðu gríni.

Mac Pro – var síðast uppfærður 2013 þannig að þetta gæti samt gerst. Uppfærsla en ekki nýtt útlit.
iMac – ólíklegt, iMac Retina var uppfærður fyrir mjög stuttu síðan en mögulega verðlækkanir á hinum iMac týpunum?
iPad Pro – hahaha. Nei.
iCar – Kannski í næsta lífi. En án gríns þá verður iCar ekki kynntur núna þó nokkuð augljóst sé að Apple sé að vinna í þeim málum.

icar-main

Frétt þýdd frá Cultofmac með viðbættum blæbrigðum frá undirrituðum.

Macland / Hörður

Fleira skemmtilegt